149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Málefnið er brýnt. Fyrir 20 árum var mælt fyrir þingsályktunartillögu um að kanna sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu. Þá höfðu hv. þingmenn sem hér sátu áhyggjur af því í hvað stefndi. Ástæðurnar sem reifaðar voru þá voru m.a. ofbeldistölvuleikir og að það vantaði fyrirmyndir fyrir drengi í skólakerfinu, t.d. voru nefndir langir vinnudagar sjómanna. Þetta er því ekkert nýtt undir sólinni. Að sama skapi er þetta ekki bundið við Ísland. Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar erlendis um vanda drengja og sitt sýnist hverjum. Sjálf tók ég þátt í umræðu hér fyrir fjórum árum um stöðu Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni þar sem ég talaði m.a. um að lesblindum drengjum gengi betur að lesa á tölvuskjá en á prenti, en einhverra hluta vegna er lesblinda mun algengari meðal drengja en stúlkna.

Að lesa saman er gefandi samvera og nauðsynleg, en í hraða nútímans eiga ung börn ekki að þurfa að lengja sinn vinnudag með óhóflegu heimanámi. Við þekkjum líklega flest umræðuna um heimanám undir kvöldmat þegar allir eru orðnir þreyttir og það ýtir undir óþarfakvíða.

Samkvæmt skýrslu norræna ráðherraráðsins sem kom út fyrr á þessu ári er munurinn 50% á brottfalli úr framhaldsskóla milli kynja. Hugsanlega hefur hátt atvinnustig á Íslandi eitthvað að segja. Auðvelt er fyrir unga drengi sem leiðist í skóla að fá vinnu. Í þessari skýrslu er bent á að mikilvægt sé að rannsaka hvað það er sem drífur þennan kynbundna mun og landfræðilega mun. Hvað er það sem fær syni bænda og sjómanna í hinum dreifðu byggðum til að vera helmingi líklegri til að falla úr framhaldsskóla en systur þeirra? Það er auðvitað óásættanlegt að svo mörgum börnum og ungu fólki líði svo illa og berjist við kvíða og þunglyndi. Við heyrum of oft dæmi þess efnis að langvarandi einelti hafi orðið til þess að ungt fólk tekur sitt eigið líf. En hvað er til ráða?

Ráðherra fór hér yfir marga þætti. Nú er m.a. samstarf í gangi milli menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um að auka aðgengi að sálfræðingum í framhaldsskólum og stofnun geðheilsuteyma á heilsugæslum. Það skiptir auðvitað máli. En mér finnst líka skipta máli að allir skólar bjóði upp á náms- og starfsráðgjöf. Einnig hefur heilbrigðisráðherra sett fjármagn til að fylgja eftir nýrri aðgerðaáætlun gegn sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við geðheilbrigðisstefnu. Þar er m.a. tekið á geðrækt og forvörnum í skólastarfi,(Forseti hringir.) gæðaþjónustu á sviði geðheilbrigðis og aðgerðum til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa. Allt skiptir þetta máli.