149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku hér til máls og hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég verð að segja að ég er afskaplega ánægður með þau viðhorf og sjónarmið sem komu fram í máli margra þingmanna og margir lögðu ýmislegt til sem kom jafnvel á óvart og ég þarf að melta aðeins. En ef ég á að „kommenta“ á eitthvað myndi ég vilja segja að ég var hissa á því hve fáir fái komu inn á það sem ég nefndi varðandi neikvæða umræðu um karlkynið, hvort hefði einhver áhrif.

Annað sem ég ætla að nefna er að sagt var að þetta væri ekkert nýtt, að það sé ekkert nýtt undir sólinni, þetta hafi alltaf verið svona. Strákar séu svona. Þeir lendi í vandræðum. Það sé náttúrulögmál. Ég neita að taka undir það. Það er ekki náttúrulögmál að níu af hverjum þeim tíu sem fremja sjálfsmorð séu drengir, 90%. Kynjahlutfallið sem sést á þessum tölum er ekki náttúrulögmál. Hins vegar veit ég að það er hugsanlega ekkert nýtt að þetta hlutfall sé svona, en það er ekki náttúrulögmál. Við verðum að geta unnið gegn þessu. Það er það sem ég er að kalla eftir. Vinnum að því að bæta þetta þó að þetta sé hugsanlega ekkert nýtt í samfélaginu.

Og svo var ýmislegt rætt varðandi skólana, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Í gær tók ég þátt í umræðum um stofnun lýðháskóla, það er t.d. eitt atriði sem vert er að nefna að gæti hugsanlega komið hér inn í og margt annað. En takk fyrir umræðuna.