149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu regluumhverfi held ég að við þurfum að gæta okkar á því að þykjast sjá fyrir hvar við getum náð árangri. Ég leyfi mér t.d. að benda á að hætt er við því að fáir hefðu trúað á hugbúnaðarþróun á Íslandi og tölvuleikjagerð. Má ég nefna það dæmi? Ég meina — við höfum ekkert verið uppfull af bjartsýni hér í þinginu eða úti í samfélaginu á að tölvuleikjagerð væri sérfræðiþekking sem Íslendingar byggju yfir, en engu að síður hefur tekist að byggja upp alþjóðlega sterkt fyrirtæki einmitt á því sviði. Með vísun í þetta þá held ég að það sé ágætt að leyfa fólki bara að hafa sínar hugmyndir og veita því almenn góð skilyrði til að hleypa þeim áfram.

Hins vegar, þegar kemur að fjárfestingu ríkisins eða tæknilausnum sem ríkið hefur þörf fyrir, þá getur verið að við getum beint fjármagninu í ákveðna átt og stýrt því meira. Tökum heilbrigðisgeirann sem dæmi. Við erum í brýnni þörf fyrir (Forseti hringir.) tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum sem skynsamlegt væri fyrir ríkið að fjárfesta í og fá til baka ávinning í kerfinu.