149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, sem fjallar um hækkun starfslokaaldurs. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson, Birgir Þórarinsson og Bergþór Ólason.

Frumvarpið er í sjálfu sér mjög stuttaralegt og einfalt. 1. gr. þess hljóðar svo:

„Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

a. Í stað orðanna „70 ára aldri“ í 1. mgr. kemur: 73 ára aldri.

b. Í stað orðanna „70 ára að aldri“ í 2. mgr. kemur: 73 ára aldri.“

Í 2. gr. segir: „Í stað orðanna „70 ára aldri“ í 2. mgr. 43. gr. laganna kemur: 73 ára aldri.“

Í 3. gr. er mælst til þess að lögin öðlist þegar gildi.

Þetta frumvarp var flutt hér fyrr, á 148. löggjafarþingi, fór þá til nefndar en hlaut ekki afgreiðslu.

Það er alkunna að íslenska þjóðin er að eldast, sem betur fer. Nú um stundir eru u.þ.b. 45.000 manns á ellilífeyrisaldri á Íslandi og fer ört fjölgandi. Með því að við lifum lengur erum við sem betur fer líka sprækari að meðaltali og höldum okkar starfsgetu og hæfileikum lengra fram eftir aldri en áður var. Það er svo í núgildandi lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að opinberum starfsmönnum, jafnt skipuðum embættismönnum og öðrum, er skylt að láta af störfum í næsta mánuði eftir að þeir verða 70 ára. Eins og við vitum þá höfum við ekkert út af fyrir sig um það að segja hvernig einkageirinn hagar sínum mannaráðningum. Ellilífeyrisaldurinn er jú miðaður við 67 ár og margir hætta þá en halda margir áfram líka, og það er í sjálfu sér samkomulag milli viðkomandi launþega og atvinnurekanda. En hjá ríkinu er það lögbundið að menn láti af störfum sjötugir.

Með því sem hér kom fram áðan að við erum að eldast og erum sprækari þá erum við í raun og veru að sóa hæfileikum og verðmætum sem búa í hugum þeirra ríkisstarfsmanna sem eiga margir hverjir að baki langan starfsaldur og eru margir hverjir einnig með sérmenntun sem er kannski ekki til mjög víða og gæti nýst ef menn fengju að vinna lengur. Svo það sé alveg skýrt þá er í þessu máli um það að ræða að menn megi vinna til 73 ára aldurs, en ekki eigi. Að sjálfsögðu er öllum frjálst að fara á eftirlaun fyrr, þeir sem það kjósa.

Eftir því sem menn vita þá eru mjög margir í þessum hópi, þ.e. embættismanna og starfsmanna ríkisins, sem hafa kosið að halda áfram störfum eftir að þeir eru sjötugir. Í slíkum tilfellum hefur oft á tíðum verið gerður verktakasamningur við viðkomandi. Ég get nefnt sem dæmi háskólakennara. Þegar þeir verða sjötugir og láta af störfum með hausinn stútfullan af þekkingu og reynslu er þeim boðið verktakastarf, herra forseti. Þeir eru sendir út úr sínum skrifstofum, eru gerðir að verktökum. Svo vill til að núverandi ríkisstjórn hefur búið svo um hnútana að þetta sama fólk má ekki vinna sér inn nema um 100 þúsund kall án þess að verða fyrir skerðingum. Þannig er reynt að kæfa það í fæðingu ef menn vilja vinna sér inn einhverja aukagetu, halda sér á tánum, taka þátt í þjóðfélaginu að fullu eins og þeir hafa gert áratugum saman, þá er brugðið fyrir menn fæti með þessum hætti af hálfu ríkisins. Það, herra forseti, er sóun sem við höfum ekki efni á,

Ég hef nefnt sem dæmi, gerði það áðan kannski, að t.d. eins og í tilfelli háskólakennara sem margir hverjir eru mjög sprækir og klárir um sjötugt, þá er í sjálfu sér ósvinna að þeim sé ekki gert kleift ef þeir vilja, ef þeir kjósa, ef þeir hafa hug til þess, ef þeir hafa heilsu til þess, að vinna lengur þannig að hægt sé að nýta þekkingu þeirra í okkar þágu.

Ég nefndi líka áðan menn með sérgreinamenntun eða menntun sem er ekki til á hverju strái, ég gæti t.d. nefnt hóp eins og náttúruvísindamenn, sem hafa að baki mjög sérhæfða menntun og eru ekki mjög ekki mjög fjölmenn stétt ef við tökum það þannig, og hafa náttúrlega í gegnum sínar rannsóknir og sín störf um áratugi aflað sér þekkingar og reynslu sem er einungis til hjá þeim sjálfum. Þessa menn og konur erum við líka að senda heim sjötug, í fullu fjöri, eða gerum þau að verktökum svo að þau geti unnið sér inn 100 þúsund kall án þess að verða fyrir skerðingum. Þetta hangir náttúrlega saman við þá tillögu sem Miðflokkurinn hefur líka lagt fram, þ.e. að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það furðar mig mjög að þetta mál skuli ekki vekja meiri athygli þingmanna en svo að þeir eru örfáir hér í salnum núna. Ég átti von á því að hér yrðu líflegar umræður um þetta mál vegna þess hversu mikilvægt það er. Þetta er nú eitt af málum sem við Miðflokksmenn höfum í hyggju, það er nú varla að maður þori að segja það úr þessum ræðustól, að flytja sem varðar eldri borgara því að þeir eru eins og við vitum fjölbreyttur hópur með fjölbreyttar þarfir og leggja þarf til fjölbreyttar áherslur við þann hóp allan, þennan 45.000 manna hóp sem fer ört fjölgandi.

Ég get ekki heldur látið þess ógetið að um leið og við leiðréttum þetta, herra forseti, ég kalla þetta leiðréttingu, um leið og við leiðréttum þessa villu, þessi rangindi að senda fullfrískt fólk heim þegar það er sjötugt, þá vinnum við miklu fleira. Við vinnum það að menn haldist félagslega virkir, að þeir einangrist ekki, og þegar ég segi menn er ég að sjálfsögðu bæði að tala um menn og konur eins og áðan, að menn einangrist ekki félagslega, að menn haldi heilsu betur, því það er jú sannað að menn halda heilsu sinni betur ef þeir hafa tækifæri til þess að hafa eitthvað fyrir stafni lengra fram eftir ævinni. Þetta mál er því að öllu leyti gott. Það er ekki hægt að benda á, alla vega ekki að mínu áliti og þeirra sem þetta mál styðja og flytja, nokkra einustu annmarka á því að þetta mál fái greiða leið í gegnum þingið og hljóti að lokum afgreiðslu hér á þinginu.

Eins og ég gat um áðan í upphafi fékk þetta mál þann framgang á síðasta þingi að það fór í hendur hv. efnahags- og viðskiptanefndar þar sem er mjög ötull formaður, vinnusamur og áhugasamur, en þrátt fyrir ákafa hans og áhuga fékkst málið ekki afgreitt nema til nefndarinnar. Ég er að vona það núna við annan flutning þessa máls að það fái lengri framgang en þá var. Nú minni ég enn á það, þó ég sé hræddur við það, að í fyrra þá lagði Miðflokkurinn til við 2. umr. fjárlaga að atvinnutekjur rýrðu ekki lífeyristekjur. Ég hygg að Miðflokkurinn muni ánýja það við 2. umr. fjárlaga nú í haust. Allt vinnur þetta saman að því, eins og hér kom fram áðan, að gera menn virkari lengra fram eftir ævinni, meiri og fyllri þátttakendur.

Þetta hefur komið fram t.d. í máli formanns Landssambands eldri borgara, þá sagði sú ágæta kona á fundi þar sem ég var staddur: Ellilífeyrisþegar renna ekki út á síðasta söludegi þó að eitt ár bætist við ævina. Þetta er algerlega laukrétt. Það að nýta ekki þá þekkingu og reynslu sem þessi hópur býr yfir er ósvinna. Við skulum gá að því að þetta er væntanlega sá hópur starfsmanna sem er einna stabílastur, ef ég má nota það orð, herra forseti, til vinnu. Þetta er fólk sem er velflest komið af því skeiði að það sé með ung börn þannig að frátafir þess frá vinnu eru út af fyrir sig sáralitlar meðan heilsan helst góð. Og samviskusamara fólk er vandfundnara, þessi eldri kynslóð sem hefur náttúrlega lagt drjúga hönd á þann plóg að gera þetta þjóðfélag að því sem það er nú í dag. Margir í þessum hópi, t.d. opinberra starfsmanna og embættismanna, hafa verið brautryðjendur í sínum störfum fyrir hið opinbera. Því get ég ekki endurtekið það nógu oft að við þurfum, okkur ber, að nýta þessa miklu reynslu, þessa miklu þekkingu sem þessi hópur býr yfir, okkur öllum til heilla og þjóðfélaginu til heilla.

Því vil ég ljúka máli mínu með því, herra forseti, að ég vil enn brýna menn — og ég þakka þeim fáu þingmönnum sem hér eru viðstaddir þessa umræðu — til þess að afgreiða málið á þessu þingi og helst fyrir jól þannig að þessi breyting geti tekið gildi hið fyrsta, t.d. 1. janúar 2019. Það er ekki eftir neinu að bíða. Þessi hópur stækkar sífellt. Við erum ekkert að tala um það að þessi hópur sé að halda yngra fólki frá því að komast í störf, alls ekki, heldur erum við fyrst og fremst að hugsa um að nýta þá þekkingu og reynslu sem hópurinn býr yfir, okkur öllum til farsældar.