149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég og hv. 1. flutningsmaður, Þorsteinn Sæmundsson, höfum átt orðastað í mars sl. þegar þetta frumvarp var fyrst flutt. Ég hef í sjálfu sér ekki breytt afstöðu minni til þess. Ég held að markmið frumvarpsins sé gott og skynsamlegt. Aftur er ég fastur í tölunni 73 ár og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kannast við þá athugasemd. Ég hefði talið rétt fyrst við erum að gera þetta að taka aðeins stærri skref og hækka starfslokaaldurinn upp í 75 ár.

Sem betur stöndum við frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum í þjóðfélaginu þegar kemur að þeim hópi fólks sem kallast nú eldri borgarar. Stór hluti þess fólks sem er að komast á eftirlaunaaldur er fullur starfsþreks og vill halda áfram að starfa. Möguleikinn lokast þegar kemur að störfum hjá hinu opinbera. Það er fráleitt í mínum huga og merki um að við nýtum ekki þá þekkingu sem til er í þjóðfélaginu á þann hátt sem okkur er nauðsynleg, með því að henda henni út.

Aftur spyr ég hv. þingmann af hverju hann hafi a.m.k. ekki notað sumarið og velt fyrir sér því sem ég spurði hann að í mars sl.: Af hverju 73 en ekki 75 ár? Hefði það ekki verið betra? Þá hefði hann kannski getað boðið mér að vera meðflutningsmaður á þessu ágæta frumvarpi.