149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast mjög vel við að við hv. þingmaður ræddum í hinni ágætu nefnd, sem var mjög vel skipuð eins og efnahags- og viðskiptanefnd er, að færa ellilífeyrisaldurinn upp í 70 ár. Ég er sammála hv. þingmanni um að eftir því sem við drögum það lengur verði það erfiðara. Ég held að ég muni rétt að hafa lesið mjög nýlega að í kringum 2020 verði u.þ.b. 20% þjóðarinnar á ellilífeyrisaldri, eða 70 ára eða eldri, og að árið 2030 um fjórðungur þjóðarinnar. Það segir sig algjörlega sjálft, eins og hv. þingmaður sagði rétt áðan, að ef við tökum ekki þá umræðu af alvöru og tökum ákveðin skref í því að hækka þann aldur, ef við t.d. drögum það í 10 ár að hefjast handa verður það gríðarlega erfitt skref að taka. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar. Við þurfum að taka umræðuna, við þurfum að taka hana af mikilli alvöru og við þurfum að hafa kjark til að taka þau skref sem nefndin lagði til á sínum tíma að tekin yrðu.

Ég ætla ekki að upplýsa hér hvort ég sé endilega sammála hv. þingmanni um að gera það á 12 árum, það yrði að gerast á grundvelli útreikninga sem fyrir lægju, þ.e. hvernig það mál kæmi út. Ég er því algerlega fylgjandi að við förum yfir einhvern tíma með ellilífeyrisaldurinn í 70 ár. Okkur veitir hreint ekkert af því, því að sem betur fer, eins og er útgangspunkturinn í umræðunni núna, er þjóðin að eldast og halda heilsu betur fram eftir ævinni, sem er þakkarvert.