149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í fyrsta lagi til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál. Það var einnig lagt fram í fyrra og fór þá til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni 1. umr., en í það sinn var ég einmitt í þeirri nefnd þótt ég sé reyndar núna búinn að fara yfir til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég er mjög sammála forsendunum fyrir þessu frumvarpi og reyndar einnig sammála þeim sem spyrja hvers vegna þessi takmörkun sé til staðar til að byrja með. Í raun og veru er eina skýringin sem ég get ímyndað mér og tekið mögulega gilda er sú að starfskjör ríkisstarfsmanna eru að mörgu leyti frábrugðin öðrum og réttindi þeirra og skyldur eru frábrugðnar því sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, það eru sérstök lög um þá o.s.frv., þannig að kannski þarf þetta að vera eitthvað sérstakt en mér þykja það ekki mjög sterk rök. Ég get séð fyrir mér að ef það ætti að afnema þetta alfarið þá þyrfti í það minnsta að fara í einhverja vinnu við að skoða hvernig ætti að breyta annarri löggjöf til samræmis.

Ég tek undir með þeim sem spyrja að því hvers vegna þessi aldur sé valinn, 73. Ég heyrði þó svar hv. flutningsmanns og tek það bara gott og gilt, ég sé alla vega ekki ástæðu til að spyrja frekar út í það, svarið liggur fyrir. Að því sögðu myndi ég sjálfur styðja hiklaust að fara upp í 75 ára aldur og jafnvel ofar þar sem ég þekki ekki rökin fyrir því að taka svona smá skref.

Mig langaði hins vegar líka að koma hingað upp til að gera grein fyrir umræðunni og umfjölluninni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta þingi vegna þess að ég held að það geti verið málinu gagnlegt þegar það fer núna aftur fyrir þingið. Því miður fór það aldrei út úr þeirri nefnd en það komu gestir. Það bárust þrjár umsagnir, nánar tiltekið frá BSRB, Landssambandi eldri borgara og Viðskiptaráði Íslands. Í tveimur síðastnefndu umsögnunum var lýst yfir eindregnum stuðningi við málið. BSRB studdi málið einnig en nefndi að bandalagið hefði átt fulltrúa í nefnd sem hafði lagt til 75 ára starfslokaaldur. Mér þótti það áhugavert og rennir stoðum undir þá sannfæringu mína að það sé algjörlega óhætt að fara upp í 75 í það minnsta, ef ekki meira.

Hv. flutningsmaður frumvarpsins nefndi í sinni ræðu að hann óskaði þess að málið yrði bara tekið í gegn mjög hratt og meðan ég deili þeim metnaði hv. þingmanns að afgreiða einföld mál, sem ég hygg að hljóti að vera stuðningur við, hratt, þá vöknuðu samt sem áður nokkrar spurningar í nefndinni sem mig langar til að gera grein fyrir hér. Að sama skapi fagna ég því að málið sé til umræðu hér svo snemma vegna þess að þá er væntanlega hægt að taka tillit til þeirra spurninga snemma í nefndinni og afgreiða málið eins fljótt og auðið er.

Það sem var nefnt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma, það sem mér fannst alla vega áhugaverðast, er að maður ávinnur sér engin frekari lífeyrisréttindi ef maður hættir að vinna sjötugur að aldri, allir lífeyrissjóðir hætta að byggja upp réttindi við 70 ára aldurinn. Þetta kom einhverjum nefndarmönnum á óvart. Þá var bent á það að til þess að taka á því, réttindasöfnuninni, þyrfti að breyta tvennum lögum. Fleiri voru ekki nefnd, gætu verið fleiri, en tvenn voru alla vega nefnd af gesti sem kom fyrir nefndina. Það voru annars vegar lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og hins vegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í þeim síðarnefndu, við stutta yfirferð, sýnist mér það vera 4. mgr. 1. gr. sem þyrfti að breyta. Svo er það önnur spurning hvort það þurfi endilega að vera þetta algera samræmi á milli laganna. Því miður kláraði nefndin ekki umfjöllun um málið og skilaði því ekki nefndaráliti og þessar athugasemdir bárust nefndinni ekki skriflega, því miður, og eru þess vegna ekki hluti af málinu við upphaf umræðunnar nú, en þetta kom fram í nefnd á sínum tíma og mér þótti rétt að gera grein fyrir þessu málinu til heilla. Ég vona svo sannarlega að það fái skjóta afgreiðslu í nefnd og verði samþykkt hér, auðvitað helst fyrir áramótin en ef ekki þá, í það minnsta í vor.