149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki hug á að reyna að kenna hv. þingmanni lögfræði, það er ég ekki fær um að gera, en af því að hv. þingmaður sagði að það væri mjög umhent að segja opinberum starfsmönnum upp held ég, bæði af reynslu og öðru, að þar gæti nokkurs misskilnings. Margt af því sem kannski hefur þvælst fyrir mönnum varðandi starf opinberra starfsmanna er að framkvæmdin á lögum nr. 70/1996 hefur aldrei verið til fyrirmyndar, eins og maður segir.

Við vorum að tala um háskólakennara sem ljúka starfi sínu sjötugir. Menn eru skipaðir samkvæmt heimild í lögum nr. 70/1996 og ef ég man rétt er gert ráð fyrir því að það sé hægt að auglýsa stöður á fimm ára fresti þannig að ef menn bíða í ofvæni eftir því að einhverjir hlunkar fari á aldur og frá störfum sjötugir er þar alveg upplagt dæmi vegna þess að það er hægt að auglýsa stöður á fimm ára fresti. Það hefur hins vegar aldrei verið gert, ekki nema menn hafi gerst brotlegir á einhvern hátt í flestum tilfellum eða grunur er um að menn hafi gerst brotlegir og þá hefur staða viðkomandi verið auglýst.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það geti verið að þeir annmarkar sem hann fann þarna séu hreinlega vegna þess að menn hafi ekki treyst sér til að fylgja lagabókstafnum sem er að finna í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar er í sjálfu sér leiðarvísir um bæði hvernig mönnum er sagt upp og hvernig hægt er að auglýsa starf manna á fimm ára fresti.