149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, lagatextinn er skýr og allt það, segir hv. þingmaður. Hann er samt ekki skýrari en svo að ég held að nánast á hverju ári falli dómur um að uppsögn opinbers starfsmanns hafi verið ólögleg, sennilega margir á ári. (ÞorS: Það er annað mál.) Ég skal ekki um það segja. (ÞorS: Þá hafa menn ekki farið eftir lögunum.) Menn telja sig vera að fara eftir lögunum en þá eru þau ekki skýrari en svo. Hvað um það, ég er sjálfur ekki hrifinn af þessari fimm ára reglu. Það veldur auðvitað óöryggi að fara úr starfi sem er kannski gott starf og vera bara ráðinn til fimm ára í næsta starf, svo er viðkomandi kannski allt í einu atvinnulaus eftir fimm ár. Mér finnst enginn bragur á því. Mér finnst miklu eðlilegra að menn séu bara ráðnir til starfa. Ef það er hins vegar mat manna að viðkomandi sé ekki nægilega góður starfsmaður — hann þarf ekki að hafa brotið af sér, hann þarf ekki einu sinni að vera mjög lélegur en kannski urðu menn fyrir vonbrigðum með hann, héldu að gæti meira o.s.frv. — á að vera hægt að segja mönnum upp með eðlilegum uppsagnarfresti.

Einhvern veginn eru ríkisstarfsmenn bara varðir fyrir öllum óþægindum sem aðrir þurfa að lifa við alla ævi. Ég held að það sé úrelt, hv. þingmaður. Það er voða gott að vera kominn inn í starf hjá ríkinu og svo er ekki hægt að hreyfa við manni það sem eftir er starfsævinnar. Svo má jafnvel lengja starfsævina til 73 eða 75 og yfirmaðurinn er alveg með böggum hildar yfir þessu. Það er ekki rétta leiðin og ég held að við eigum einfaldlega að hafa allsherjarendurskoðun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er löngu kominn tími á að endurskoða þau lög.