149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég er alveg sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um það hvernig réttindi ríkisstarfsmanna ættu að vera. Ég er þó vissulega eitthvað í áttina að þeirri skoðun sem hann tjáði hér, þ.e. að auðveldara ætti að vera að segja ríkisstarfsmönnum upp en nú er. Ég veit alveg um slík dæmi og það er frekar skrýtið að ekki sé hægt að segja fólki upp sem einfaldlega stendur sig ekki. Ef maður spyr ríkisstarfsmenn segja þeir: Ja, við erum á frekar lélegum launum. Þeir telja sér þetta til tekna á móti.

Ókei, það er hægt að fara í þá umræðu og hún er góðra gjalda verð. Það er alveg sjálfsagt að ræða það. Ég tala nú ekki um ef hv. þingmaður leggur fram frumvarp til breytinga á lögum í þágu þessa eða þingsályktunartillögu um að fá einhvern af hæstv. ráðherrum til að nota slík frumvörp. Ef nógu vel er vandað til og hún gengur ekki of langt fyrir minn smekk gæti ég alveg hugsað mér að vera meðflutningsmaður á slíkri tillögu.

Hins vegar sé ég ekki mótrökin, í nálgun hv. þingmanns, gagnvart starfsréttindum ríkisstarfsmanna. Ég skil svo sem þegar hv. þingmaður nefnir að hugsanlega væri um að ræða starfsmann sem væri ómögulegur en ekki hægt að reka hann; nú þurfi yfirmaðurinn að sætta sig við að hafa hann til sjötugs og eftir samþykkt þessa frumvarps til 73 ára aldurs. En ég velti fyrir mér: Hvað með hið gagnstæða? Hvað ef um er að ræða góðan starfsmann sem yfirmaðurinn vill hafa og starfsmaðurinn vill vinna áfram? Hér er ríkið að grípa svolítið fram fyrir hendurnar — ekkert svolítið, bara algerlega — á báðum aðilum og svipta þá frelsi til að ákveða sjálfir. Ég sé ekki mótsögnina í þeim málstað sem hv. þingmaður nefndi hér með hliðsjón af þessu. Þetta gengur í báðar áttir. Mér finnst frumvarpið þar af leiðandi ekki vera hluti af þeim annars áhugaverða málstað sem hv. þingmaður berst hér fyrir.