149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var bara að víkka umræðuna aðeins út. En varðandi þetta ákveðna frumvarp segi ég: Ég væri mjög sáttur við að heimild væri til að vinna lengur en ekki eingöngu ef starfsmaðurinn vill það heldur líka vinnuveitandinn. Það er ekki gert ráð fyrir því hér. Það er lykilatriði að báðir séu sáttir við það. Ég er í sjálfu sér mjög fylgjandi því að víkka út þessa heimild. Mér finnst það mjög skrýtið að á 70 ára afmælisdeginum getum við ekkert unnið. Bara: Út! Af hverju er það? Við eigum auðvitað að hafa eitthvert svigrúm í þessu. En það á ekki að vera algilt, að mínu viti, og einhliða ákvörðun starfsmannsins að vinna eins lengi og hann vill, a.m.k. ekki meðan þessi miklu réttindi starfsmanna eru í starfsmannalögum eins og þau eru núna.

Ég vil því skoða þetta í heild sinni með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þurfum við hugsanlega að breyta einhverju öðru? Ég er alveg ótrúlega mikið sammála því að hafa svigrúm. Menn hafa leitað til mín í öngum sínum. Einu sinni gerði það fangavörður sem þótti afskaplega góður fangavörður. Hann varð sjötugur. Hann gat ekki verið fangavörður lengur. Allir vildu hafa hann, ekki síst fangarnir, en það var ekki hægt. Það finnst mér raunverulega fáránlegt.

En ég segi eins og hv. þingmaður: Ég vil rýmka þetta en ég vil ekki að það sé einhliða ákvörðun launþegans.