149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það er rétt hjá hv. þingmanni að ég var ekki að vísa til orða hans hér áðan. Mér dettur ekki í hug að hann hafi verið að tala af einhverju virðingarleysi um opinbera starfsmenn og raunar finnst mér enginn hafa talað af sérstöku virðingarleysi um opinbera starfsmenn í þessari umræðu. Menn hafa bara ákveðna skoðun, mismunandi skoðun, á þessum hlutum. Ég kom upp í ræðustól ekki síst vegna orða hv. þm. Brynjars Níelssonar, sem er aftur kominn í þingsal, og heyrði því miður ekki mína góðu ræðu. Við eigum orðastað um þetta bara á öðrum vettvangi.

Eins og ég nefndi áðan er ég tilbúinn í endurskoðun á lögum um opinbera starfsmenn með hv. þm. Brynjari Níelssyni, en þá á þeirri forsendu fyrst og fremst að jafnaður sé sá launamunur sem er raunverulegur milli opinbera markaðarins og hins almenna. Við erum búin að fara í lífeyrismálin, við eigum launamálin eftir.