149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, er með þeim hætti að ekki verður annað sagt en að það sé ágætisdæmi um góðan ásetning sem því miður verður að líkindum til þess að valda meiri skaða en reynt er að laga. Það er oft þannig, og undir það tek ég með 1. flutningsmanni, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, að svokallað kennitöluflakk, þ.e. þegar það er ásetningur eiganda fyrirtækis og stjórnenda að koma eignum undan og hefja rekstur undir nýrri kennitölu, er vandamál sem við þurfum að glíma við og þurfum að horfast í augu við. Og við þurfum að leysa þann vanda. Slík háttsemi, sem er sviksamleg, er merki um meinsemd og óheilbrigða viðskiptahætti og er í raun ósanngjörn þegar kemur að heiðarlegum eigendum í íslensku atvinnulífi.

Ef markmiðið með frumvarpinu, sem mér virðist vera í greinargerðinni, er að reyna að ná tökum á þeim sem stunda slíka starfsemi að skjóta eignum undan rekstri sem er kominn í vandræði — jafnvel hefur verið stofnað til hans í upphafi í þeim tilgangi eins og þekkt er — þurfum við að ná böndum yfir það. En þetta frumvarp gengur miklu lengra. Þetta frumvarp leggur í raun til refsingar — ef réttur manna til að stofna fyrirtæki og setjast í stjórn er tekinn af þeim er það ákveðin tegund refsingar — og hugsanlega er þá verið að refsa fólki, einstaklingum, sem hefur ekki með neinum hætti brotið lög, hefur ekki verið ákært, hvað þá hlotið dóm.

Nái frumvarpið fram að ganga með þeim hætti sem hér er lagt til er ljóst að verið er að refsa fólki sem hefur stundað viðskipti af heiðarleika, fólki sem hefur þurft að glíma við erfiðleika í rekstri, fyrirtækið orðið gjaldþrota með heiðarlegum hætti og engum eignum skotið undan. Það er algengast þegar fyrirtæki sigla í þrot að skiptastjóri taki við og eignir séu í búinu, eins og eðlilegt er, og þeim sé síðan úthlutað eftir reglum til þeirra sem eru lánardrottnar og eiga inni kröfu á viðkomandi fyrirtæki. Slíkt er eðli frjálsra markaðsviðskipta að fyrirtæki verða gjaldþrota. Nái frumvarpið fram að ganga óttast ég að verið sé að leggja á óþarfa refsingu og ósanngjarna. Ég dreg hreinlega í efa að það standist atvinnuréttindi, sem tryggð eru í stjórnarskrá, að svipta menn atvinnufrelsi sem með engum hætti hafa brotið lög en það er það sem frumvarpið gengur út á.

Ég hef líka áhyggjur af því að frumvarp af þessu tagi, nái það fram að ganga, geti haft töluverð áhrif á framtíð okkar sem þjóðar og lífskjör okkar. Í dag mælti hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpi varðandi ívilnun þegar kemur að nýsköpun og rannsóknum. Ég hygg að almennt njóti það frumvarp, án þess að ég hafi gert á því könnun, almenns stuðnings í þessum sal. Þetta frumvarp vinnur gegn nýsköpunarfyrirtækjum. Það vinnur gegn ungu fólki sem ætlar að hasla sér völl með nýjar hugmyndir. Það er auðvitað þannig að það eru ekki öll nýsköpunarfyrirtæki sem ganga upp og við eigum að viðurkenna það. Við eigum ekki að gera það tortryggilegt með neinum hætti að fólk stofni fyrirtæki í kringum nýjar hugmyndir, nýjar vörur, nýja þjónustu og nýjar lausnir og það gangi kannski ekki upp með þeim hætti sem að var stefnt og vonast var til. Stór hluti nýsköpunarfyrirtækja, ekki bara á Íslandi heldur erlendis, siglir í strand, verður gjaldþrota. Það eru það sem ég myndi kalla heiðarleg gjaldþrot. Ég hygg meira að segja að hægt sé að færa rök að því að með því höfum við fjárfest pínulítið í þekkingu og reynslu viðkomandi.

Í Bandaríkjunum veit ég að menn hafa á orði að enginn sé orðinn alvöru í viðskiptum fyrr en hann hafi þurft að súpa það seyði og sigla þann brotsjó sem fylgir því að reyna að byggja upp fyrirtæki frá grunni og lenda á vegg í eitt til tvö skipti og verða gjaldþrota. Við megum ekki ganga þannig fram, í lagasetningu hér á þinginu, að það sé gert tortryggilegt að stunda viðskipti og stofna fyrirtæki í frjálsu markaðshagkerfi. Það er hluti af frjálsu markaðshagkerfi, samkeppni á markaði, að sumar hugmyndir gangi ekki upp. Þær voru reyndar, markaðurinn felldi sinn dóm og fyrirtækið fer í þrot. Þetta er ekki vandamálið. Vandamálið er auðvitað þegar menn stunda óheiðarleg viðskipti og það sem flutningsmenn kalla kennitöluflakk. Það eru til aðrar heilbrigðari og betri leiðir en það sem flutningsmenn leggja til.

Ég hefði kosið að menn hefðu kannski sótt í smiðju Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem lögðu fram ákveðnar tillögur eða hugmyndir á síðasta ári í þeim efnum. Það hefði líka hugsanlega verið hægt að sækja í smiðju ríkisskattstjóra. Það er líka hægt að segja það hér að efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft þetta mál — ekki þetta frumvarp heldur þetta vandamál, kennitöluflakk — til umfjöllunar og ætlar að halda þeirri umfjöllun áfram og hefur m.a. boðað fulltrúa ríkisskattstjóra á sinn fund. Eitt af því sem hlýtur að koma til greina er einmitt að horfa til þess að lagðar séu kvaðir á menn, þ.e. að þegar menn óska eftir skráningu á hlutafélagi sé gengið úr skugga um að þeir standi í skilum þegar kemur að vörslufé, þ.e. á virðisaukaskatti, iðgjöldum lífeyrissjóða og staðgreiðslu skatta. Það virðist nefnilega vera þannig að stór hluti af því sem fer fram og kallast kennitöluflakk snýst um að snuða og hafa af ríkissjóði vörslufé í formi virðisaukaskatts.

Því miður óttast ég að þetta frumvarp gangi of langt. Það gengur gegn þeim hugmyndum sem ég hef um atvinnufrelsi. Það gengur gegn því að við styðjum fremur við þá viðleitni fólks að hasla sér völl í sjálfstæðum rekstri og koma fram með nýjar hugmyndir um vöru og þjónustu. Ýtum undir það. Gerum það ekki tortryggilegt þó að það takist ekki í fyrstu, annarri eða þriðju tilraun svo lengi sem menn stunda sín viðskipti á heiðarlegan hátt. Við ættum fremur að velta því fyrir okkur hvort það er ekki eitthvað í regluverkinu sem getur gert að verkum að auðveldara verði að stofna fyrirtæki, að það verði ódýrara að stofna fyrirtæki. Hv. þm. Smári McCarthy hefur imprað á því og talað um að við ættum að gera gangskör að því að gera það tiltölulega þægilegt og ódýrt að stofna til hlutafélaga eða einkahlutafélaga þannig að við séum að ýta undir athafnaþrá einstaklinga.