149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:49]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að ég hefði í ræðu minni bent á a.m.k. eina leið. Hún er sú að gera þá kröfu til þeirra sem skrá nýtt hlutafélag, óska eftir skráningu á hlutafélagi eða einkahlutafélagi, að þeir séu með hreint borð þegar kemur að vörslufé, m.a. virðisaukaskatti. Samkvæmt mínum upplýsingum frá ríkisskattstjóra snýst stærsti hluti af því sem hér er kallað kennitöluflakk, sem er óheiðarleiki, sviksemi þegar kemur að gjaldþroti fyrirtækja þar sem eignum er skotið undan, um að snuða ríkissjóð um virðisaukaskattinn og í raun önnur vörslugjöld, þar á meðal iðgjöld í lífeyrissjóði sem særir starfsmenn viðkomandi fyrirtækis. Ég hygg að það sé ein leið.

Ef ég man rétt þá er það ein af þeim hugmyndum sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands voru með. Þeir benda líka á að það sé nauðsynlegt að ríkisskattstjóri sem um leið fer með ársreikningaskrá hafi stöðvunarheimild gagnvart atvinnurekstri. Hann hafi heimild til þess að stöðva rekstur fyrirtækja ef honum sýnist að það sé sviksemi í þeirri starfsemi áður en til gjaldþrots kemur. Þannig að það eru margar leiðir. Í guðs almáttugs bænum, ég bið bara þingmenn að ganga ekki þannig fram að það sé þeirra að refsa eða setja bönd á heiðvirt fólk sem hefur verið að stunda viðskipti og rekstur fyrirtækja, þó að það hafi komist í þrot einu sinni eða tvisvar.