149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við þingmaðurinn vorum að ræða hérna frammi sjónarmiðin þegar kennitöluflakk skaðar þau fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á þeim sem hlaupast undan ábyrgðum sínum. Það er ástæðan fyrir því að við viljum taka fyrir það en líka skekkir það samkeppnisstöðu á markaði.

Sú leið sem lögð er til í þessu frumvarpi takmarkar samt sem áður atvinnufrelsi fólks og þá er maður með ákveðna hluti á vogarskálunum. Hvað ef hægt væri að koma í veg fyrir kennitöluflakkið og skaðann sem það veldur án þess að takmarka atvinnufrelsið? Ég hef heyrt eina tillögu þegar ég hef rætt við atvinnurekendur sem eru búnir að vera mjög lengi hjá stöndugum fyrirtækjum. Einn talar um að hann og aðrir atvinnurekendur ættu að hafa aðgang að góðum raunupplýsingum um kennitöluflakk, hverjir hafa farið með fyrirtæki í þrot, og líka um það hverjir hafa verið með einhvers konar rekstur og kennitölu á honum sem síðan hefur farið í þrot stuttu eftir að það fyrirtæki var selt. Þannig náum við líka utan um umfangið, ef við sjáum svoleiðis aftur og aftur sést að þarna er aðili sem er að notfæra sér þessa útfararþjónustu, að láta skrá óstöndugt fyrirtæki eða fyrirtæki sem er búið að stunda óheilbrigðan rekstur á einhvern annan aðila og láta hann taka fallið. Ef þessar rauntímaupplýsingar eru til staðar fyrir atvinnurekendur geta þeir tekið miklu upplýstari ákvörðun um það hvort þeir ætla að stunda viðskipti við aðilann og þetta myndi líka ná yfir opinbera aðila sem hafa svigrúm, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi, til að versla ekki við aðila út frá einhvers konar viðskiptasögu.