149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni með þessu andsvari. Um það síðasta sem hv. þingmaður sagði vil ég fyrst taka fram að samkvæmt lögum mega opinberir aðilar ekki versla við eða gera samninga við aðila sem er t.d. í vanskilum við ríkissjóð, aðila sem hefur ekki staðið skil á vörslugjöldum o.s.frv. Það hefur samt gerst, samanber nýlegt dæmi sem ég nefndi í ræðu minni í dag um Reykjavíkurborg sem er að gera hér nýjan samning við fyrirtæki í ferilþjónustu fatlaðra og er núna á þriðju kennitölunni, að vísu veit ég ekki á hve löngum tíma, þannig að þetta er ekki alveg algilt. En þarna eru lög sem gilda. Er hægt að fara einhverja aðra leið, jafnvel með upplýsingagjöf o.s.frv.? Jú, á Íslandi eru gefnar út, að ég tel, nokkuð vandaðar vanskilaskrár þar sem eru upplýsingar um aðila sem hafa ítrekað farið í þrot. Eigum við að segja að það sé til að vara aðila við að eiga viðskipti við slíka? Það kann vel að vera að það dugi en það hefur ekki dugað til þessa. Vanskilaupplýsingar hafa út af fyrir sig legið hér fyrir hjá líklega tveimur, þremur, fjórum fyrirtækjum síðustu 15 árin ef ég man rétt en það hefur ekki dugað til.

Spurningin er bara hvort við eigum að stíga þetta skref. Er það hömlun á atvinnufrelsi? Hugsanlega. Það kemur þá bara í ljós í meðförum nefndarinnar. Ef nefndin telur að þetta frumvarp fari í bága við stjórnarskrá afgreiðir hún það ekki. Ég tel ekki að svo sé. Ég segi aftur: Þegar 73% stjórnenda fyrirtækja segjast hafa orðið fyrir skaða af kennitöluflakki hef ég „tendens“ til að taka svari þessara 73%.