149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefni aldraðra.

40. mál
[18:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kom einmitt inn á það að í því tilfelli þegar kemur að þjónustu við eldri borgara og uppbyggingu íbúða fyrir þá, eru það einmitt mikið til sjálfseignarstofnanir, held ég, í flestum tilfellum eða einhvers konar félög sem hafa komið að því. Ég fagna þeim fjölbreytileika mjög í rekstrarformum. Ég er mjög hlynnt því og ég held að þessi félög mörg hver hafi lyft miklu grettistaki og skipti okkur öll gríðarlega miklu máli.

Ég minnist þess eftir að hafa átt samtal við íbúa í Boðaþingi í kringum kosningar sem voru mjög ósáttir við hvernig úr málum þeirra hefði spilast. Ég gerði einhverja tilraun til að kynna mér þessi mál og ræddi m.a. við forstjóra Hrafnistu um úrvinnslu málsins og annað. Ef mig misminnir ekki er skylda á þessum félögum að senda ársreikninga til Ríkisendurskoðunar en það er ekki endurskoðað með neinum hætti af Ríkisendurskoðun. Þeir eru bara birtir. Ég ræddi við fulltrúa hjá Ríkisendurskoðun sem sagði: Við berum enga ábyrgð á þessu annað en að þetta er bara birt hérna.

En ég tek auðvitað heils hugar undir það að það er auðvitað með aðeins öðrum hætti þegar við ræðum hjúkrunarheimilin. Þar er eftirlitið meira, t.d. varðandi daggjöldin sem koma frá ríkinu, það er svolítið annað. En það sem við erum að ræða nú sérstaklega er þessi uppbygging sem hefur verið á íbúðum fyrir aldraða, svokallaðar öryggisíbúðir. Þar gekk fólki auðvitað bara gott eitt til að byggja upp slíkar íbúðir, en svo varð þetta svokallaða hrun sem var náttúrlega meiri háttar, þá kom í ljós að þessi snjóbolti virkaði ekki lengur, hann lenti á vegg.

Ég hlakka því til að takast á við málið í efnahags- og viðskiptanefnd og fara yfir þær umsagnir sem um málið berast, en ég ítreka að ég held að félögin hafi breytt þessu fyrirkomulagi svolítið, enda er full ástæða til að huga alltaf að eftirliti í þessum efnum og tryggja rétt þeirra sem þarna höfðu sannarlega talið sig vera að fjárfesta í íbúðum.