149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi.

41. mál
[19:04]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er góðra gjalda vert og ágætt að leggja þingsályktunartillöguna fram. Málið er þegar í farvegi. Það er verið að vinna að þessu. Ég hef öruggar heimildir fyrir því að við fáum niðurstöðu fyrir árslok.

Ég velti því fyrir mér hvort hraði þingmanna í Miðflokknum hafi verið svo mikill við að endurvinna mál að þeir hafi beinlínis ekki áttað sig á þessari stöðu, að málið er komið í þennan farveg. Ég velti því fyrir mér hvort menn hafi hreinlega farið fram úr sér við að tína upp mál frá öðrum. Þetta er engu að síður mjög gott mál, en ég sé bara ekki alveg tilganginn með því.

Það má vel vera að ungur flokkur og meðlimir hans séu enn að finna fjölina sína og athuga hvar áherslurnar eigi að liggja. En hér er bara enn eitt góða framsóknarmálið til umræðu. Ég fagna því eins og ég fagna alltaf góðum framsóknarmálum og finnst gott að þeim sé lyft upp. En tilganginn með framlagningu þessa máls sé ég bara ekki, hv. þingmaður.