149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

aðgerðir gegn skattsvikum.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er góð hugmynd að ná þrepunum í virðisaukaskattskerfinu betur saman. Ég held hins vegar að óraunhæft sé að tala um það í útfærslu nema við séum í leiðinni að ná fram lækkun á skattbyrði. Nú er ég bara að reyna að tala sem raunsæismaður en ég held að við náum ekki saman um slíka kerfisbreytingu nema samhliða skattalækkun. Það þyrfti þá að fela í sér að við værum að fara í eitt þrep sem lægi undir 20% í skatti. Við erum ekki að vinna að því í augnablikinu, önnur mál eru í forgangi hjá okkur og við sjáum ekki í langtímaáætlun í ríkisfjármálum að það væri það svigrúm til skattalækkana í virðisaukaskattskerfinu sem myndu þurfa að fylgja slíkri breytingu. En það myndi þá gerast samhliða, að við færum upp með neðra þrepið og tækjum inn í virðisaukaskattskerfið greinar sem eru þar fyrir utan í dag.