149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka þetta upp og vera með vangaveltur sem mér finnst eiga fyllilega rétt á sér. Við sinnum að vissu leyti aðhaldshlutverki gagnvart ríkisstjórninni en ég vil líka undirstrika að ég tek heils hugar undir með þeim þingmönnum sem hér ræddu áðan um málfrelsi þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Við þurfum að finna því farveg, hvernig það málfrelsi verður best nýtt, bæði hvað varðar aðhaldshlutverk stjórnarandstöðunnar, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla lýðræðislega framvindu og umræðuna, en ekki síður það að stjórnarþingmenn, ég veit það vel hafandi verið þar, geti líka fundið fjölina sína.

Að því sögðu vil ég eindregið beina því til stjórnarmeirihlutans að hætta að koma með tillögur um að takmarka ræðutíma, t.d. um skýrslur, um fjárlög eða önnur mikilvæg málefni, og koma frekar með tillögur sem ýta undir málfrelsi allra þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.