149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Í ríkisstjórn Framsóknarflokksins, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og Sjálfstæðisflokksins skilaði nefnd skýrslu um eignarhald erlendra aðila á fasteignum og jarðnæði. Þetta var gert 2015 og m.a. hæstv. núverandi dómsmálaráðherra sat í nefndinni. Ég tek undir það meginsjónarmið nefndarinnar sem kom þar fram að erlend fjárfesting auki hagsæld og fjölbreytileika í íslensku samfélagi og atvinnulífi, að það sé farsælast að auka frjálsræði á þessu sviði og draga úr undanþágum eins og kostur er.

Við þekkjum þó ýmsar eðlilegar takmarkanir, ekki síst út frá almannahagsmunum. En hver er vandinn í dag? Hann er helst sá að það er ógegnsæi í reglum og framkvæmdum, að vissu leyti hentistefna sem ríkir, m.a. gagnvart íbúum utan EES, og það fer stundum eftir því hver er ráðherra hverju sinni.

Nefndin taldi á sínum tíma mikilvægt að við þróun reglna á þessu sviði væri gætt eins mikils jafnræðis og kostur er, t.d. varðandi þjóðerni eða búsetu. Vega eigi þyngra tilgangur nýtingar á jarðnæði en eignarhald innlendra eða erlendra aðila, með öðrum orðum að notagildið sé sá þáttur sem mestu máli skiptir. Jafnræði að þessu leyti skapaði að mati þáverandi nefndar jákvæð viðhorf til fjárfestinga hér á landi og gilti auðvitað ótvírætt innan EES-svæðisins.

Ég tek undir þetta. Það er notagildið sem við eigum að hugsa um en ekki hvort um sé að ræða Íslendinga eða útlendinga. Ef það á að takmarka meginregluna um frjálsræði í þessum efnum getur það verið flókið. Ég vil hins vegar draga fram að það má hugsa sér annars vegar að setja fram reglur, t.d. eins og er í Danmörku um fimm ára búsetuskilyrði, en slík regla er, vel að merkja, algild. Hún gildir líka um Íslendinga. Á hinn bóginn verðum við líka að ræða of mikla samþjöppun lands á fárra manna hendur, óháð því hvort það séu Íslendingar eða útlendingar. Ég held að ekki verði hjá því komist að ræða það. Við sjáum það m.a. í sjávarútvegi — og ég kem að því í seinni ræðu minni — að löggjafinn veitir ákveðnar (Forseti hringir.) vísbendingar um að of mikil samþjöppun, eins og t.d. á veiðiheimildum, getur ógnað (Forseti hringir.) almannahagsmunum. Ég held að við hljótum að taka slíkar viðmiðanir til gaumgæfilegrar athugunar og skoða hvort það eigi m.a. að setja einhverjar takmarkanir (Forseti hringir.) á samþjöppun á eignarhaldi á landi.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)