149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Fjölbreytileiki er andstæðan við einsleitni. Við viljum öll sem hér erum búa í fjölbreyttu samfélagi. Ég trúi því. Ef kerfið styður ekki við þann fjölbreytileika sem við viljum þarf að breyta því. Ég undirstrika það.

Samfélagið hefur ekki tekið við sér eins og staðan er núna. Það er bara raunveruleikinn sem blasir við. Það þarf raunverulega hvata. Sem dæmi: Við erum með næga skattalega hvata fyrir erlendar fjárfestingar. Við erum með næga fjárfestingarhvata í ýmsum atvinnugreinum. Af hverju er ekki hægt að fara slíkar leiðir til þess að ýta undir lífsgæði þeirra einstaklinga sem þurfa sérstaklega á stuðningi okkar að halda?

Störfin eru ekki til staðar og það er eitthvað að. Ég veit það t.d. að það hafa verið einstaklingar, bæði drengir og stúlkur, á lista hjá Vinnumálastofnun alveg frá því um áramót. Ég veit að Vinnumálastofnun er að reyna að gera sitt besta en störfin eru ekki til staðar. Þess vegna þarf þessa hvata. Á meðan eru einstaklingarnir okkar, vinir okkar, börnin okkar, að tapa færni, tapa hæfni og gleði — og síðan starfsgetu til lengri tíma. Það er óboðlegt í okkar nútímasamfélagi.

Þess vegna skiptir máli að t.d. hið opinbera — þar eru hæg heimatökin — komi sér upp reglu, stefnu um hvernig ráðið er í hlutastörf og heilsdagsstörf innan opinberra stofnana og m.a. í ráðuneyti. Það er hægt. Það þarf bara að setja sér þau markmið.

Síðan er hitt, að opna þetta allt saman þannig að farið verði í þessar aðgerðir. Ég hef trú á því að fyrstu mánuðir þess ráðherra sem núna er félagsmálaráðherra, og ætlar að kalla sig barnamálaráðherra líka, byrji jákvætt, byrji vel fyrir hönd barna og ekki síst fatlaðra. Ég hef trú á því að hann sitji ekki við orðin tóm heldur fylgi þessu ákalli eftir héðan úr þingsal, að eitthvað verði gert í þessum málum.

Orðin eru góð. En við þurfum núna aðgerðir fyrir þessi (Forseti hringir.) börn, fyrir þessi ungmenni sem þurfa á bæði úrræðum og stuðningi samfélagsins að halda.