149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki efnisatriði fyrirspurnarinnar sem er til umræðu en alveg sjálfsagt að taka undir með þingmanninum um að greið samskipti verði að vera milli þings og stjórnkerfis. Hins vegar vil ég nota tækifærið til að vekja máls á því að við erum með ólíkar leiðir til að kalla fram svör frá stjórnkerfinu. Það eru ákveðnar reglur um hvernig menn eigi að bera sig að til að fá t.d. skýrslur. Það þarf atkvæðagreiðslu um það í þinginu hvort skýrslubeiðni eigi að fá að ganga fram. Þegar um er að ræða fyrirspurnir er gefinn ákveðinn frestur. Þá tvo þætti vil ég nefna sérstaklega vegna þess að þegar um frest er að ræða, þegar fyrirspurnir eiga í hlut, er auðvitað út frá því gengið að eitthvert umfang sé í fyrirspurninni sem raunhæft sé að bregðast við innan frestsins. Ella hljótum við að vera farin að tala um fyrirspurn (Forseti hringir.) sem er farin að líkjast skýrslubeiðni. Þarna held ég að við eigum mikið verk eftir óunnið í þinginu, í því samtali að læra um mörkin þarna á milli.