149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[16:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir framsöguna og fyrir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Ég hygg að við mættum oftar ræða málefni fanga í þessum sal, ég held að það sé mjög mikilvægt því að þessi hópur gleymist oft í umræðunni. Fangelsin sinna gríðarlega mikilvægu máli þegar kemur að betrun fanga. Því fagna ég að þingsályktunartillaga sem þessi sé komin fram og þá sé tækifæri til að ræða málefni fanga. Hér er sérstaklega verið að leggja áherslu á sálfræðiþjónustu til fanganna.

Þá langar mig að nefna svo það komi hér fram að verið er að bæta í um 100 millj. kr. á milli áranna 2018 og 2019 í fangelsismál. Þar skilst mér að áætlaðar séu um 50 milljónir vegna fjölgunar fangavarða og 50 milljónir varðandi sálfræðiþjónustuna. Það er gott mál að verið sé að gefa í í þeim þætti því ég tek undir það sem fram kom í ræðu þingmanna á undan mér hversu mikilvæg sálfræðiþjónustan er.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson nefndi líka þjónustu geðlækna. Ég held að það sé ýmis mikilvæg þjónusta veitt í fangelsunum. Þar eru félagsráðgjafar, þar eru læknar og hjúkrunarfræðingar, meðferðarúrræði, námsráðgjöf, sálfræðingar og svo trúmál.

Hæstv. forseti. Þetta las ég upp af heimasíðu Fangelsismálastofnunar um þá þjónustu sem í boði er.

Ég vil taka undir mikilvægi þess að við búum vel að föngum og styðjum þá í einu og öllu í betrunarvist þeirra. Þetta á númer eitt, tvö og þrjú að vera betrunarþjónusta. Þess vegna fannst mér áhugavert þegar ég heyrði viðtal við fangelsismálastjóra ekki alls fyrir löngu en hann var einmitt að lýsa því hvað við hefðum náð miklum árangri í þeim efnum. Oft verður umræðan hér um harðari refsingar sem kann vel að vera að þurfi í einhverjum tilfellum, en ég held að samfélagið sem slíkt eigi fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum hjálpað þessum aðilum til betra lífs og út úr þeim vítahring sem þeir hafa yfirleitt komið sér í. Ég held að við séum að gera marga góða hluti, megum eflaust gera betur. Mér sýnist við vera að gera það, m.a. með auknum fjárveitingum á næsta ári.

Mig langaði aðeins að segja það varðandi þessa þingsályktunartillögu, ég held að sálfræðiþjónustan sé mjög mikilvæg, að ég myndi, virðulegur forseti, líka gjarnan vilja treysta þeim sem fara með þennan málaflokk til að ráðstafa þeim fjármunum sem þeir fá frá fjárveitingavaldinu með þeim hætti sem þeir telja bestan. Mér finnst full ástæða til þess að við á hinu háa Alþingi leggjum áherslu á þennan þátt, sálfræðiþjónustuna, en ég er ekki viss um hvort það sé besta leiðin að ákveða að það eigi að vera einn sálfræðingur í hverju fangelsi á landinu. Þau eru mismunandi stór, álagið getur verið mismunandi og þörfin misjöfn, kannski þarf meiri vímuefnaaðstoð eða þess háttar, námsráðgjöf eða eitthvað slíkt. Ég held að góðu fréttirnar séu þær að við séum að gefa í og gera betur og full ástæða til að við ræðum einhverjar áherslur í þeim efnum. En ég fyrir mitt leyti myndi vilja treysta viðkomandi yfirvöldum til að leggja mat á það hvar þörfin liggur helst.