149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[17:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar í seinna andsvari mínu að víkja að máli sem hv. þm. Guðjón Brjánsson snerti óbeint á í ræðu sinni áðan.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um aðra heilbrigðisþjónustu í fangelsum almennt og hvort þingmanninum þætti bragur að því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd tæki það jafnvel aðeins fyrir í umfjöllun sinni eða hvort þingmanninum þætti það vatna fullmikið út þessa tillögu og víkka fókusinn of mikið og skapa hættu á að tillagan yrði ekki samþykkt.

Þingmaðurinn þekkir eins og ég þá umræðu sem hefur verið undangengin ár um allt of brotakennda heilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins. Það er algerlega á hreinu að það getur ekki verið verkefni betrunarkerfisins að útsetja þá sem eru innan þess fyrir því að þurfa auk frelsissviptingar að sitja uppi með lélega heilbrigðisþjónustuna. Það er eiginlega alveg útilokað að það sé markmiðið.

En þá komum við aftur að því sem er alltaf þessi eilífi mönnunarvandi. Þess vegna vil ég í lok andsvarsins ítreka að það er alls ekki pælingin hjá mér — ef má segja að svoleiðis í ræðustól, forseti — að reyna að forðast það að Fangelsismálastofnun fái skýr skilaboð. Spurning mín áðan var fyrst og fremst af praktískum toga.