149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[17:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og framlagningu á þessari þingsályktunartillögu, sem ég tek eftir að hefur verið lögð fram áður í tvígang alla vega. Ég hef ekki verið þess gæfu aðnjótandi að taka þátt í umræðu um það áður eða getað fylgt því máli eftir.

Fyrsta spurning mín til hv. þingmanns lýtur að þeim umsögnum sem borist hafa um málið á fyrri stigum, eða í þeim tilfellum þar sem það hefur verið lagt fram áður, hvers eðlis þær séu. Ég náði nú á meðan hv. þingmaður var að flytja ræðu sína að renna aðeins yfir það. Þarna er fjöldi umsagna sem hefur borist og virðist það vera í sumum málum svart eða hvítt, annaðhvort með eða á móti.

En fyrsta spurningin er: Hafa tillöguflytjendur gert einhverjar breytingar á þingsályktunartillögunni? Hafa þeir tekið tillit til einhverra af þeim umsögnum sem fram komu á fyrri stigum málsins? Og hefur það þá haft einhver áhrif á það hvernig málið er fram sett?