149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um notkun og ræktun lyfjahamps. Þetta er þingsályktunartillaga þingmanna Pírata og mun vera í þriðja sinn sem hún er lögð fram í þinginu.

Hv. þingmenn muna sjálfsagt eftir umræðunni frá því á síðasta þingi um sama mál. Þar kom svo sem ýmislegt fram og var farið yfir málið með ýmsum hætti. Ég bendi hv. þingmönnum á að lesa ræðu mína frá í fyrra. Ég ætla ekki að lesa hana fyrir hv. þingmenn núna, hún er á alþingisvefnum og er að mörgu leyti alveg ljómandi góð þótt ég segi sjálfur frá. En það var ekki hún sem ég ætlaði að ræða sérstaklega, heldur vildi ég ræða eina umsögn sem kom við þingsályktunartillöguna í fyrra og hún kom frá Læknafélagi Íslands. Í þeirri umsögn er þingmönnum m.a. bent á að kynna sér og lesa grein úr Læknablaðinu. Höfundar hennar eru Arnar Jan Jónsson, Hera Birgisdóttir og Engilbert Sigurðsson. Í greininni er fjallað um notkun kannabis og hættu á geðrofi og þróun geðklofa. Þessir fræðimenn vitna í fjöldann allan af fræðigreinum og rannsóknum sem ber í rauninni allar að sama brunni, þ.e. að notkun þessa efnis í umtalsverðum mæli auki verulega hættuna á geðrofseinkennum og geðklofa.

Það þýðir út af fyrir sig ekki að efnið sé gagnslaust, við notum fullt af lyfjum og efnum sem geta valdið alvarlegum hliðarverkunum, jafnvel alvarlegum sjúkdómum, en þá er a.m.k. oft ein af ástæðunum fyrir því að við notum þau lyf sú að við höfum ekkert annað betra, að við höfum ekki betri kosti í stöðunni.

Við skulum ekki gleyma því að þegar við erum að tala um lyf erum við að tala um efni sem hafa gengið í gegnum ítarlegar rannsóknir, efni sem hafa gengið í gegnum mjög erfiðar rannsóknir sem oft og tíðum hafa leitt til þess að viðkomandi lyf eru stoppuð og fara aldrei á markað. Og í tilfelli tetrahýdrókannabínóla, virku efnanna í kannabisplöntunni, eru ekki til neinar sérstaklega góðar rannsóknir þar sem þau lyf eru mæld beint á móti öðrum lyfjum við sömu einkennum eða sömu sjúkdómum. Við skulum líka átta okkur á því að við erum nær alltaf að tala um einkennameðferð þegar við notum lyf eins og kannabínóíð. Við erum ekki að tala um lækningalega meðferð með þessum lyfjum. Við erum að tala um einkennameðferð.

Virka efnið sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þó tekið fram að geti verið gagnlegt, þ.e. kannabídíól, er þegar framleitt og er hægt að fá í töfluformi með undanþágu hjá Lyfjastofnun. Nokkrir íslenskir sjúklingar nota það í þeim tilgangi, m.a. börn. Það að halda því fram, eins og var gert hér áðan, og segja með almennum hætti að lyfið gagnist við flogaveiki er býsna langt seilst. Jú, það hjálpar eitthvað hjá litlum undirhópi barna með flogaveiki. Þau örfáu börn á Íslandi sem þannig háttar til um að eru með þessa tilteknu tegund af flogaveiki hafa gagn af undanþágunum sem þegar eru til staðar og geta nálgast lyfið með þeim hætti. Hins vegar er býsna stórt stökk þaðan og yfir í það að ætla að leyfa ræktun og notkun efnisins með almennum hætti. Það kemur ekki einu sinni fram í tillögunni hvort flutningsmenn gera ráð fyrir að menn geti ræktað þetta heima í stofu eða hvort það verði að einhverju leyti skilgreint með hvaða hætti þessi ræktun verði, hvort hún verði stöðluð, hvaða kvæmi plöntunnar eigi að nota o.s.frv.

Nei, frú forseti, við erum hreinlega ekki komin það langt að geta sagt almennilega til um hvort gagn sé af þessari plöntu yfirleitt. Þar að baki eru líka hundruð rannsókna. Það sem við vitum hins vegar er að alls staðar þar sem við aukum aðgengi að efnum sem er hægt að misnota, hvort sem það er ætlunin þegar við leyfum aðgengið eða ekki, eykst notkunin. Við vitum líka að það er línulegt samband milli aukinnar notkunar efna sem er hægt að misnota og vímuefnanotkunar og þeirra vandamála sem af kunna að hljótast. Þess vegna sé ég ekki tilganginn í því að bæta inn í flóruna á Íslandi einni leiðinni til. Ég hef áður lýst því yfir í ræðustóli að afglæpavæðing notkunar kannabis- eða vímuefna yfirleitt er ljómandi góður kostur og ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Ég hef meira að segja sagt hér áður að við eigum að eltast við raunverulegu glæpamennina í því tilliti, þá sem selja og framleiða. Það er að mínu mati miklu skynsamlegra.

En það að aðrar þjóðir hafi farið einhverja tiltekna leið og leyft notkun og að aðrar þjóðir hafi aðra lyfjalöggjöf en við eru í mínum huga ekki nokkur einustu rök í þessu máli. Við myndum ekki vilja hafa sömu lyfjalöggjöf og sumar þær þjóðir sem leyfa kannabis og sumar þær þjóðir sem leyfa kannabis myndu ekki vilja hafa okkar lyfjagjöf. Það verður alltaf að vera klæðskerasniðið að hverju samfélagi fyrir sig.

Ég sé ekki nokkra einustu ástæðu til að ganga lengra í þessum efnum og við eigum að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga, eins og kom fram í ræðu áðan. Nær allir þeir sérfræðingar sem tjáðu sig um málið þegar það kom síðast fram mæltu eindregið gegn því að það yrði samþykkt. Ég held að það sé alveg nógur vitnisburður.