149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þegar málin eru snúin og flókin er ágætt að taka sér lengri tíma í að vinna þau og það myndi skila ríkissjóði 3 milljörðum í viðbótartekjur á næsta ári sem væri hægt að nota til að hætta við þennan niðurskurð til öryrkjanna og tryggja ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum einhverja kaupmáttaraukningu.

Ég hlýt að staldra aðeins við þessa staðhæfingu um hjúkrunarrýmin. Alllengi hefur legið fyrir greining á því að hér vanti á næstu árum a.m.k. 500 hjúkrunarrými. Ég trúi því ekki að slíkar framkvæmdir gufi allt í einu upp og að það sé ekkert til að grípa í til að koma í stað þeirra framkvæmda sem tefjast. Ég trúi ekki öðru en að menn hafi einfaldlega metnað til að ráðast í að hraða öðrum framkvæmdum. Auðvitað er þetta niðurskurður, auðvitað er þetta milljarður sem fer ekki í uppbyggingu hjúkrunarrýma á næsta ári og hlýtur þar af leiðandi að auka á þann vanda.

Það leiðir hugann að öðru. Maður horfir á yfirlýsingar stjórnarflokkanna um stórkostlega áherslu í uppbyggingu innviða, þar með talið þessum, (Forseti hringir.) sem átti að auka fjárfestingu í innviðum um 8 milljarða á milli fjárlaga 2018 og þessa frumvarps 2019. Ég sé í fljótu bragði að það er skorið niður í 5 þannig að allt þetta stórátak virðist vera horfið á milli umræðna.