149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:44]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir. Við búum svo vel að vera að vinna eftir sömu stefnu og þegar hv. þingmaður var hæstv. félagsmálaráðherra. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á miklu dýpra og viðameira samráð við alla helstu hagsmunaaðila í þessu. Það hefur verið mjög neikvæð orðræða um starfsgetumat, afleiðingar þess, árangur þess í nágrannalöndum okkar og við höfum reynt að leggja áherslu á að fá einhverja samfellu í það, sameiginlega niðurstöðu sem getur verið hagfelldari fyrir einstaklingana sem þurfa að nýta sér þetta kerfi.

Þingmaðurinn spyr hvers vegna þetta sé spyrt svona saman. Það er einfaldlega vegna þess að við höfum lagt upp í þá vegferð, og ég held að fyrri ríkisstjórn hafi verið á sömu vegferð, að gera breytingar á almannatryggingakerfinu samhliða því að innleiða nýtt kerfi almannatrygginga og starfsgetumatskerfi, starfsendurhæfingarkerfi og virknikerfi. Sú vinna verður að fara saman, hún verður að vera unnin samhliða. Það er það sem hefur verið lagt upp með og við höfum ekki niðurstöðu úr þeirri vinnu enn þá. Hún hefur dregist, m.a. vegna þess að samráð tekur tíma.

Við höfum því ekki niðurstöður um það hvaða fjármuni nákvæmlega þurfi í þetta verkefni. Við höfum heldur ekki niðurstöðu um það hvernig væri best að ráðstafa því fjármagni sem við þó höfum þannig að það styðji sem best við þá heildarhugsun sem á að taka við með nýju kerfi.

Ég vil bara segja að við erum að vinna nokkurn veginn eftir sömu stefnu og þegar hv. þingmaður var hæstv. ráðherra og munum gera það áfram af því að við ætlum að ljúka þessari vinnu.