149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir yfirgripsmikla ræðu og þó ég sé honum að mörgu leyti sammála er ég líklega frekar mikið ósammála honum þegar kemur að því að tala þessi fjárlög niður, eins og mér finnst Samfylkingin því miður verið að gera. Hv. þingmaður kom inn á að eitthvað gott væri hægt að finna þarna. Ég vil játa það fyrir hv. þingmanni að 90 milljarða viðbót í tvennum fjárlögum telst nokkuð gott, held ég. Það er meira en þingflokkur hv. þingmanns lofaði í kosningunum og það er líka meira en minn þingflokkur lofaði fyrir kosningarnar að setja í kerfið á þeim árum sem fram undan eru, þ.e. næstu fjórum árum. Ég man ekki til þess að neinn annar flokkur hafi lofað slíkum fjármunum. Ég vil því ítreka, hv. þingmaður, að hér er gríðarlegum fjármunum bætt í nærfellt alla málaflokka.

Við setjum 1,5 milljarða að raungildi í umhverfismálin. Ég saknaði þess hjá hv. þingmanni. Við bætum 15 milljörðum í heilbrigðismálin á þessu ári. Við eflum göngudeildir, hjúkrunarrými, geðheilbrigðisþjónustu. Við festum biðlistaátakið upp á 840 milljónir. Við getum ekki leyft okkur að tala eins og hér sé sáralítið gert eða um varnarsigur sé að ræða. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé virkilega staddur þar. Við erum að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði. Við erum að setja af stað teymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir.

Varðandi mannahald í hinum dreifðu byggðum vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að laun eingöngu leysi málið eða hvort hann telji að vandinn geti verið stærri, af því að mér hefur alla vega heyrst vera þannig undir.

Svo ætla ég að ræða aðeins betur hjúkrunarheimilismálin (Forseti hringir.) í síðara andsvari.