149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:27]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög mikilvæg atriði sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kemur inn á. Ég er að mörgu leyti sammála og reyndar, ef hv. þingmaður hefur verið að hlusta á mig, var ég í öðru hverju orði að fagna loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég var ekki að tala um að það hefði verið niðurskurður til þeirra mála, þvert á móti fagnaði ég því að verið væri að bæta í. Ég vil bara gera meira.

Ég sakna t.d. í þessum tillögum og svo sem í fleiri tillögum sem við fjöllum um hér á þinginu, þar á meðal í fjárlagafrumvarpi, að ekki sé horft meira á almenningssamgöngurnar. Það má nefna líka kolefnisgjöldin sem eru í rauninni lækkuð frá því fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram af hægri stjórninni, sem má kalla svo.

Ég veit að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála varðandi loftslagsmálin, að við þurfum að grípa til aðgerða þar. Þá er ég alls ekki, og ég vona að hv. þingmaður eða aðrir áheyrendur hafi ekki misskilið mig, og á engan hátt að gera lítið úr því sem er verið að gera. Ég held bara að við séum á þeim stað í baráttunni við hækkandi hitastig og loftslagsmál að við eigum að leggja okkar af mörkum og við höfum tækifæri til að leggja meira af mörkum en við gerum. Þó að við séum lítil og þó að það skipti kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu er það samt svo að við höfum margt fram að færa og getum verið til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Það tel ég mikilvægt að við séum.