149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hv. þm. Pírata, Björn Leví Gunnarsson, er búinn að fara yfir áherslur Pírata og mun gera það aftur í ræðu seinna í dag eða í kvöld. Það sem mig langar að gera og setja inn í þessa umræðu er hvað landsmenn vilja raunverulega, hvernig landsmenn sjálfir vilja forgangsraða í ríkisfjármálum, t.d. hvort auka eigi útgjöld í ákveðna málaflokka eða lækka einhverjar skatttekjur eða greiða upp skuldir. Þingflokkur Pírata hefur núna á hverju ári í fjögur ár, held ég, fengið Gallup til að gera fyrir sig skoðanakönnun þar sem fólk er beðið um að forgangsraða því hvernig það vill sjá ríkisfjármálin. Til þess að sú rödd heyrist, rödd landsmanna, í þessari umræðu um hvernig skuli deila út úr ríkiskassanum, þá ætla ég að fara yfir það hér.

Þessi skoðanakönnun var gerð í vor þegar umræðan var um ríkisfjármálaáætlun, sem er áætlunin sem stillir upp þeim ramma sem ríkisstjórnin síðan hefur, fjármálaráðherra, til að setja fram fjárlagafrumvarpið sem við hér ræðum.

Nú var hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, að ganga í salinn sem er mjög gott þannig að ég ætla aðeins að endurtaka mig. Ég er að taka saman skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir þingflokk Pírata í vor, eitthvað sem við höfum gert árlega, á því hvernig landsmenn vilja forgangsraða í ríkisfjármálum, forgangsraða út frá bæði tekjunum sem koma inn, sköttunum, eða auknum útgjöldum.

Fyrst, ef við förum yfir stóru myndina, þá er það að auka útgjöld til heilbrigðismála efst hjá kjósendum allra flokka. Kjósendur allra flokka vilja setja í forgang að auka útgjöld til heilbrigðismála. Það er með forgangseinkunnina 76, hefur lækkað lítillega milli ára, en er efst hjá öllum, á meðan allar skattalækkanir, lækkanir á auðlindagjöldum og niðurgreiðsla skulda, ná samanlagt aðeins forgangseinkunninni 46 og hefur lækkað lítillega eða um 1 punkt síðan síðast. Það er alveg ljóst að landsmenn vilja frekar auka útgjöld til heilbrigðismála, það fær forgangseinkunn 76, en að lækka alla skatta og greiða niður skuldir, sem hefur ekki nema 46 í forgangseinkunn. Það kemur alveg skýrt fram hver vilji landsmanna er hvað það varðar.

Vilji landsmanna er skýr í næsta málaflokki, sem eru samgöngumálin. Þau eru hástökkvarinn frá skoðanakönnuninni í fyrra. Á þessu ári stökkva samgöngumálin upp um 9 punkta og fara rétt upp yfir menntamálin, eru með í kringum 39 í forgangseinkunn, en þar á eftir eru menntamálin mjög skýr, koma beint á hæla þeirra. Aðrir málaflokkar hafa lítið eða ekkert breyst þannig að það er alveg ljóst að samgöngumál eru hástökkvarinn.

Ef við horfum á þessar tölur út frá kyni þá vilja konur almennt setja í forgang heilbrigðismálin, menntamálin, húsnæðismálin og velferðarmálin, almannatryggingamálin í heild. Konur yfir það heila setja þessa málaflokka í meiri forgang, en karlar eru frekar með forgang í samgöngumálum og lækkun skatta umfram konur.

Ef við horfum á aldurssamsetninguna þá kemur fátt á óvart, en það sem kannski kemur á óvart er hvað þessar tölur geta verið ýktar hvað aldurssamsetninguna varðar. Heilbrigðismálin eru farin að vega verulega minna hjá 45 ára og eldri, fara niður um 5–7 forgangsröðunarpunkta miðað við í fyrra. Samgöngumálin vega þyngra hjá þeim eldri og hafa hækkað um 8–13 punkta hjá þeim sem eru eldri en 35 ára. Þetta er eitthvert þema sem maður virðist sjá varðandi aldur, það eru umskipti, munur, 10 forgangspunktar aftur og aftur, á milli þeirra sem eru undir 35 ára og þeirra sem eru eldri en 35 ára.

Menntamál eru þyngri hjá yngri kynslóðinni sem notar menntakerfið, að sjálfsögðu. Almannatryggingar eru áfram massíft aldurstengdar og það hefur lítið breyst, þau mál fá 18 forgangspunkta hjá þeim sem eru 18–24 ára, en eru komin upp í 43 í forgangseinkunn hjá 65 ára og eldri. Kemur ekki á óvart.

Löggæsla og öryggismál eru léttvægari hjá 35 ára og yngri, fá um 21 í forgangseinkunn, en vega í kringum 30 hjá þeim sem eru 35 ára og eldri. Aftur, þarna er 50% hækkun eða 10 punktar í muninum á þeim sem eru yngri eða eldri en 35 ára.

Húsnæðismál eru mál unga fólksins, með 37 hjá þeim sem eru 18–24 ára, dettur niður í 30 hjá þeim sem eru 25–34 ára, og síðan er forgangseinkunn komin niður í 20 og allt niður í 16 hjá þeim sem eru 35 ára og eldri. Aftur eru stökkin gríðarlega mikil á þessu aldursbili, yfir 35 ára eða yngri en 35 ára.

Tekjuskattur vegur svo þyngra hjá þeim sem greiða hann, það er bara mjög skiljanlegt að það skuli raðast þannig.

Ef við horfum á stöðuna út frá búsetu, þá vega samgöngumál töluvert þyngra því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu, könnuninni er bara skipt upp þannig, en mann grunar að það sé eflaust líka þannig í öðrum byggðakjörnum sem eru smærri í hinum kjördæmunum úti á landi, en maður sér þetta klárlega á höfuðborgarsvæðinu, þar er forgangseinkunnin í kringum 35–36 í Reykjavík og Kraganum en er komin 10 stigum ofar, upp í 45 í öðrum sveitarfélögum.

Húsnæðis- og skipulagsmál raðast öfugt við þetta. Meðan samgöngumálin vega þyngra úti á landi, þá vega húsnæðis- og skipulagsmálin meira í Reykjavík þar sem þau eru í 28, í Kraganum detta þau niður í 21 og síðan minnst í öðrum sveitarfélögum þar sem þau eru komin niður í 18 í forgangseinkunn.

Fólki í Kraganum er hugleiknara að lækka tekjuskatt en kjósendum á öðrum svæðum og það skilur maður líka þegar maður sér samsetningu kjósenda í kjördæmunum sem kjósa frekar flokka sem eru tilbúnir að setja það í forgang. Hið sama má segja um lækkun virðisaukaskatts og tekjuskattinn.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn hefur forgangseinkunnin lækkað töluvert á milli ára í Kraganum, fékk í fyrra rétt rúmlega 6 í forgangseinkunn, en er kominn niður í 3 í ár, þ.e. það að setja í forgang að lækka fjármagnstekjuskattinn hefur minnkað næstum því um helming í Kraganum á milli ára, er orðið svipað og önnur sveitarfélög.

Menningarmál eru svo, eins og engum gæti komið á óvart, „101“-mál, svona Reykjavíkurmál.

Í menntun eru stærstu bilin á milli þeirra sem eru háskólagengnir og grunnskólagengnir. Háskólagengnir setja meiri fókus á menntamál, það er mjög ofarlega, fær 52 í forgangseinkunn, á móti 29 hjá grunnskólagengnum, en setja minni fókus á velferðarnetið. Þeir nota það síður svo það er skiljanlegt. Háskólagengnir vilja frekar setja menntamál í forgang, en sökum þess hversu góða menntun þeir hafa og öruggari atvinnutækifæri þá leggja þeir minni áherslu á velferðarnetið sem þeir nota síður. Þetta kemur ekkert á óvart.

Háskólafólk er líklegra til að sætta sig við hærri skatta og vilja frekar greiða niður skuldir. Grunnskólagengnir setja löggæslu og öryggismál ofar menntun og treysta meira en aðrir á velferðarkerfið og almannatryggingar og eru þar með 33 í forgangseinkunn á móti 24 þeirra sem háskólagengnir eru. Grunnskólagengnir hafa síður efni á að borga hærri skatta og nota skattfé í niðurgreiðslu skulda í stað velferðar. Þetta kemur allt saman ekkert á óvart.

Ef við skoðum menntamál út frá kjördæmum þá eru landsbyggðarkjördæmin þar með forgangseinkunnina 30–35, meðan á landsvísu er það örlítið ofar. Landsbyggðarkjördæmin eru með 30–35 og skera sig frá Stór-Reykjavíkurkjördæmunum sem eru með 40–45, þau leggja meiri áherslu á menntun.

Löggæslu- og öryggismál. Fyrir ári var Suðurkjördæmi með afgerandi forystu í löggæslumálum, þau voru komin ofar í forgangsröðuninni í kjördæminu en menntamál, sem er áhugavert. Hefur forgangsröðunin lækkað mikið þegar kemur að löggæslu- og öryggismálum þar og lækkað annars staðar, nema á einum stað, sem er Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem hún hefur hækkað lítillega, annars hefur þessi þáttur lækkað yfir það heila og mjög mikið, um ein 8 forgangsstig ef ég man rétt, í Suðurkjördæmi.

Samgöngumál eftir kjördæmum. Þar sker Norðvesturkjördæmi sig verulega úr með 49 í forgangseinkunn í samgöngumálum og hefur hækkað úr 43 sem einkunnin var í fyrra. Hafa hin landsbyggðarkjördæmin hækkað mikið líka og eru komin með 45 og 42 í forgangseinkunn í þessu. Núna hefur Stór-Reykjavíkurkjördæmið hækkað líka, um 10–12 punkta, og forgangseinkunnin er komin upp í 34 og 37. Þannig að öll kjördæmi hafa tekið verulegt stökk sem sýnir sig náttúrlega líka í landstölunum þar sem samgöngumál eru komin í annað sæti í forgangsröðun landsmanna í ríkisfjármálunum. Þau eru samanlagt komin með forgangseinkunnina 38. Ef við skoðum það í samhengi við lækkun skatta sem ég kom inn á áðan þá er heildareinkunnin þegar kemur að öllum sköttum; skattalækkanir, niðurgreiðsla skulda, auðlindagjöld og slíkt, samanlagt 46, meðan samgöngumál eru komin upp í 39 í forgangsröðun landsmanna. Það ætti að segja þessari ríkisstjórn að hún verði að gera vel í samgöngumálum. Þetta er þvert yfir línuna, öll kjördæmi.

Húsnæðismál. Þar sker Norðvesturkjördæmi sig aftur úr, kjósendur þar hafa bara langminnstar áhyggjur af þeim, húsnæðismál eru ekki með nema 11 í forgangseinkunn þar og hafa lækkað milli ára um, ef ég man rétt, 4–5 forgangsstig, á meðan íbúar í Reykjavík hafa mestu áhyggjurnar, eru með um 28 í forgangseinkunn og svo Kraginn og önnur kjördæmi með 21. Það er rúmlega helmingsmunur og næstum því 250% meiri áhyggjur í Reykjavíkurkjördæmi á móti Norðvesturkjördæmi þegar kemur að húsnæðismálum. Reykjavíkurþingmenn verða að setja þetta í forgang ef þeir ætla að setja þau mál í forgang sem kjósendur þeirra í kjördæminu vilja hafa í forgangi.

Skattar og ríkisskuldir brenna helst á þeim sem búa í Kraganum og Reykjavíkurkjördæmi norður er menningarmiðstöð Íslands hvað þetta varðar, sem ætti heldur ekki að koma á óvart þegar maður horfir á kjósendur í þessum kjördæmum.

Áttundi liður hérna, tekjur. Hvernig líta þær út? Hvernig forgangsraða landsmenn út frá tekjum sínum? Þar sjáum við mjög áhugaverða hluti.

Heilbrigðismál fá á bilinu 71 forgangsstig upp í 81 eftir tekjum. Það er ekkert augljóst samhengi þar. Samgöngumál aftur á móti vega þyngst hjá fólki eftir því sem pyngjan hjá þeim þyngist, eftir því sem fólk hefur meira á milli handanna þá hækkar forgangseinkunnin, fer upp í 41 stig miðað við 21 stig hjá þeim sem hafa minnst á milli handanna. Það er áhugavert, kannski vegna þess að þeir tekjuhærri eru með fleiri bíla og nota samgöngukerfið meira. Ætli það sé ekki málið?

Menntun og fræðslumál. Það kemur á óvart. Menntun og fræðslumál höfðu vegið meira hjá millistéttinni. Þegar teknir voru þeir tekjulægstu og svo þeir sem voru tekjuhæstir var forgangurinn mestur í miðjunni. Þetta hefur breyst. Í ár hefur forgangseinkunn þeirra sem eru tekjulægstir og tekjuhæstir hoppað upp um 8 stig, upp í rúmlega 40, á sama stað og þeir sem eru í miðjunni, með millitekjurnar. Ég ætla að koma aðeins inn á þetta þegar ég ræði húsnæðismálin, hver ástæðan getur verið.

Í fyrra höfðu þeir tekjulægstu mestar áhyggjur af húsnæðismálum, einkunn 28, á meðan tekjuhæstu höfðu minnstar, með 18 stig, sem er skiljanlegt, maður myndi búast við því. Svo voru aðrir tekjuhópar rokkandi einhvers staðar þarna á milli. Stóra breytingin í ár er að næstlægsti tekjuhópurinn, ekki þeir sem eru undir 250.000 kr. sem eru lægstu tekjurnar, heldur þeir sem eru með 250.000 kr. og upp í 400.000 kr., hann hefur talsvert meiri áhyggjur núna, fer úr 25 upp í 30. Áhyggjurnar aukast. Þessi hópur er á leigumarkaði svo að það kemur ekki á óvart. En það sem kemur á óvart er að tekjulægsti hópurinn, með tekjur undir 250.000 kr., hefur verulega minni áhyggjur, þar lækkar forgangseinkunn úr 28 og fer niður í 19. Á sama tíma eykst aftur á móti forgangur þeirra í menntamálum, fer úr 34 og upp í 42, hoppar upp um 8 punkta. Þá fer maður að horfa á þetta. Ég sá þetta sama í tölunum fyrir einu ári þegar ég skoðaði eitt kjördæmi sérstaklega, það var Suðvesturkjördæmi. Í Suðvesturkjördæmi var áherslan minni en meðaltalið var í húsnæðismálum nema í þeim tekjuflokki þar sem er lágtekjufólk á vinnumarkaði. Ég fór að hugsa: Fólk sem er með undir 250.000 kr. er mikið til fólk sem er í námi. Þannig að tilgátan er þessi, sem gæti mögulega útskýrt þessar tölur: Það fólk sem er í námi og er flest með undir 250.000 kr. á mánuði hefur minni áhyggjur af húsnæðismálum vegna þess að það er hætt á leigumarkaðnum: Það hefur flutt heim á hótel mömmu og hefur þar af leiðandi minni áhyggjur af því og setur t.d. menntamálin í meiri forgang. En þeir sem eru eftir á leigumarkaði, láglaunafólkið á leigumarkaði, með 250.000–400.000 kr., hafa meiri áhyggjur að sjálfsögðu, út af hækkandi leigu.

Þegar kemur að tekjum, sköttum og skuldum, þá eru þeir sem eru með yfir 1,5 milljónir í tekjur afgerandi mest mótfallnir því að greiða skatta og vilja nota meira af skattfé í að greiða niður skuldir. Forgangseinkunn í niðurgreiðslu skulda vex úr 7 upp í 22 eftir hærri tekjum, þannig að það er þrefaldur munur þarna. Eftir því sem menn hafa hærri tekjur vilja þeir frekar að ríkissjóður greiði niður skuldir, þrefalt meira en þeir sem lægstu tekjurnar hafa, nema hjá þessum hópi sem er alveg lægstur, með tekjur undir 250.000 kr, en sá tekjuhópur er að breytast mikið um þessar mundir og passar þetta inn í þá tilgátu sem ég var að nefna áðan, að þetta sé fólk í námi sem hafi hrökklast af leigumarkaði og aftur inn í foreldrahús, forgangsraðar þar af leiðandi öðruvísi, hefur ekki lengur sömu áhyggjur af húsnæðismálum.

Ef við tökum síðan bara kjósendur flokka, horfum á hvernig þeir forgangsraða, þá sjáum við eins og ég nefndi í upphafi að kjósendur allra flokka setja heilbrigðismál afgerandi í forgang, alveg frá 70 í forgangseinkunn. Hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins hefur það aukist, var 65 á síðasta ári, þannig að þeir hafa sett þessi mál enn þá meira í forgang. Kjósendur sumra annarra flokka sem höfðu meiri áhyggjur af þessum málum, eins og kjósendur Pírata, eru rólegri núna, enda höfum við líka talað fyrir því. Við sjáum möguleika á því að Svandís Svavarsdóttir, hæstv. heilbrigðisráðherra, muni geta gert góða hluti í þessum málaflokki. Þó sjáum við að ekki er verið að tryggja nægar tekjur, hvorki til Landspítalans né annarra heilbrigðisstofnana. Það er miður. Það er eitthvað sem verður að laga. Það var erindi um þetta frá heilbrigðisstofnunum landsins sem sent var til fjárlaganefndar. Ef Svandísi Svavarsdóttur tekst ekki að tryggja rekstrartekjur fyrir heilbrigðisstofnanirnar þá mun hún missa mikið traust að ég tel. Mitt traust mun alla vega dvína á getu hennar til að halda utan um málaflokkinn, þó ég muni ekki gefast alveg upp á henni, hún hefur verið að gera góða hluti, suma góða hluti. Ég skil ekki hvers vegna hún fór í sjálfseignarstofnanirnar fyrst. Landsmenn eru ekkert á móti því að sjálfseignarstofnanir reki t.d. SÁÁ og svoleiðis. Það eru smá vonbrigði. Ég er ekki alveg búinn að gefast upp á henni, en ég vil fá að heyra rökstuðning hennar fyrir því hvers vegna er ekki verið að tryggja rekstrartekjur fyrir heilbrigðisstofnanir landsins. Ég verð að fá þau svör ef ég á að geta haldið áfram að gefa henni séns með heilbrigðismálin. En alla vega, kjósendur allra flokkar setja heilbrigðismál í afgerandi forgang.

Þá skulum við skoða hvað kemur í öðru, þriðja og fjórða sæti hjá kjósendum flokkanna. Hjá Framsóknarflokknum eru samgöngumálin afgerandi á eftir heilbrigðismálum, eða með 43 í forgangseinkunn. Á hæla þess koma mennta- og fræðslumál. Þetta hefur gjörbreyst frá síðasta ári, enda klofnaði Framsóknarflokkurinn, það fóru margir úr Framsóknarflokknum í Miðflokkinn og eftir það hafa menntamálin stokkið upp í forgangi hjá Framsóknarflokknum. Fengu líka menntamálaráðherrann, þeir hafa líklega skilið að kjósendur þeirra sem sátu eftir settu menntamálin meira í forgang. Svo eru löggæslu- og öryggismál með 30 í einkunn. Þetta eru þá heilbrigðismálin og næstu þrjú mál hjá Framsóknarflokknum.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins setja heilbrigðismálin fyrst, þar á eftir samgöngumál, 42. Svo kemur að lækka tekjuskatt einstaklinga í þriðja sæti, áhugavert. Löggæslumálin koma svo strax á hæla þess með 29.

Samfylkingin. Mestan forgang hjá þeim kjósendum fá heilbrigðismál. Svo koma menntamálin, því næst almannatryggingar og svo samgöngumál.

Þá er komið að Vinstri grænum. Þetta er áhugavert. Afgerandi mestur forgangur í heilbrigðismálum. Svo koma menntamálin með 53 í forgangseinkunn, síðan samgöngumál. Það eru í rauninni tveir armar í Vinstri grænum, það er mennta- og menningararmurinn í Reykjavík, svo ertu með framsóknararminn, myndu sumir kalla það, á landsbyggðinni og landsbyggðin setur náttúrlega samgöngumálin í mikinn forgang, þannig að það er ekki skrýtið að það komi þarna upp. En sjáið hvað við erum með. Við erum með flokk sem er með heilbrigðismálin í forgangi og hefur sett ráðherra þangað sem er mjög fær í sínu fagi. Fengu að vísu ekki mennta- og menningarmálaráðuneytið þó að það málefni sé næst á eftir heilbrigðismálunum. Samgöngumálin, fengu að vísu ekki það ráðuneyti, en fóru í samstarf með flokki sem tók það. En það er ekki fyrr en í fjórða sæti að kemur að almannatryggingum hjá kjósendum VG, þær fá ekki nema 27 í einkunn. Þannig að það er ekkert skrýtið, fólk er svo hissa á því hvers vegna almannatryggingar virðist ekki vera í meiri forgangi hjá Vinstri grænum en þegar maður sér þessar tölur um kjósendurna þá kemur það ekkert á óvart. Forgangurinn er í mennta- og menningarmálum og í samgöngumálum. Þetta er landsbyggðin. Þetta eru þessir tveir armar. Þegar kjósendur setja mál í forgang og flokksforystan setur mál í forgang á grundvelli þess hvað kjósendur þeirra vilja, þá er ekkert sérstaklega skrýtið að sjá að almannatryggingar, velferðarþátturinn, er ekki jafn ofarlega og hinir þættirnir. Þá fer þetta allt loksins að verða miklu skýrara.

Ef við horfum á Framsóknarflokkinn í sama málaflokki, af því að þetta er það sem helst hefur verið talað um hérna í fjárlagaumræðunni, staða öryrkja og almannatryggingar, þá eru kjósendur Framsóknar með ekki nema 17 þar, á meðan samgöngumál fá 43 í forgangseinkunn. Það er ekkert skrýtið að þeir séu ekkert endilega að setja púðrið þangað, þó að þeir tækju stöðu félagsmálaráðherra. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þar með 21 stig. Þannig að við erum með 17, 21 og svo 27 hjá kjósendum Vinstri grænna. Þessir flokkar eru bara ekkert með þennan málaflokk í jafn miklum forgangi og önnur mál.

Kjósendur Pírata. Þar eru heilbrigðismálin eins og annars staðar númer eitt, númer tvö eru húsnæðismálin. Okkar kjósendur eru afgerandi í vali sínu, eru með 41 í forgangseinkunn í húsnæðismálum, þeir vilja laga húsnæðismálin. Ef maður skoðar tölurnar er það skiljanlegt. Meiri hluti kjósenda okkar er ekki yngsta fólkið, ekki næstyngsta fólkið, heldur þar á eftir, á bilinu 29–34 ára, einhvers staðar á þessu bili. Þetta er fólk sem er að reyna að komast af leigumarkaði. Yngsta fólkið eins og kom fram í þessum tölum er hlaupið aftur heim á hótel mömmu ef það er að fara í nám og hefur þar af leiðandi minni áhyggjur af húsnæðismálum, yngsti aldursflokkurinn. Já, þetta er það sem kjósendur okkar setja í mestan forgang á eftir heilbrigðismálunum. Þar á eftir koma mennta- og fræðslumál, sem er líka mjög skiljanlegt miðað við aldurssamsetninguna. Þar á eftir koma almannatryggingar. En ef við horfum á tölurnar, hvaða tekjur fólk í þessum hópi er með þá endurspeglar það meira en aðrir tekjuhópar.

Viðreisn. Á eftir heilbrigðismálum sem eru á svipuðum stað og hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins, örlítið ofar, fá 72 í forgangseinkunn, koma mennta- og fræðslumál númer tvö. Þar á eftir koma samgöngumál og svo í fjórða sæti niðurgreiðsla skulda, sem er áhugavert. Það er áhugavert að skoða það í samhengi við aldurssamsetninguna.

Þetta er það sem kjósendur sögðu í vor þegar við vorum að ræða fjármálaáætlunina að þeir vildu setja í forgang, greint út frá búsetu, hvaða flokka þeir kjósa, aldri, efnahag, menntun. Þetta er það sem landsmenn vilja.

Á morgun langar mig að taka saman þessar upplýsingar og setja þær í samhengi við það sem flokkarnir hafa verið að lofa í sínum stjórnarsáttmála og hvernig það rímar síðan saman við fjárlög. Þetta er mikilvæg mynd sem þarf að setja inn í þessa umræðu. Hvað vilja kjósendur í raun og veru?