149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

ályktanir miðstjórnar Framsóknarflokksins.

[14:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til formanns Framsóknarflokksins vegna ýmissa áhugaverðra ályktana nýafstaðins miðstjórnarfundar flokksins. Þar eru kannski áhugaverðastar þær ályktanir sem snerta íslenska neytendur með ýmsum hætti. Þannig ályktar flokkurinn að undanþiggja skuli íslenskar afurðastöðvar í kjötiðnaði í samkeppnislögum. Flokkurinn er væntanlega hæstánægður með þann árangur sem hlaust af sambærilegu undanþáguákvæði í mjólkuriðnaði. Mjólkurafurðir hafa enda hækkað langt umfram önnur matvæli, þar með talið kjöt, á þeim 15 árum sem þær undanþágur hafa verið í gildi.

Þá ályktar flokkurinn um mikilvægi þess að banna áfram innflutning á fersku kjöti þó svo að ríkið sé margdæmt í málinu og öll fagleg rök fyrir slíku banni hafi verið fyrir löngu hrakin. Eftir stendur að hér er aðeins um hreina og beina viðskiptahindrun að ræða ætlaða til að halda uppi matvælaverði í landinu. Um það vill Framsóknarflokkurinn standa vörð.

Loks ályktar flokkurinn um mikilvægi þess að Ísland fái undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans. Mér hefur verið algjörlega fyrirmunað að skilja hvað það er sem Framsóknarmenn sjá sem ógn af orkupakkanum. Ísland er ekki tengt sameiginlegum orkumarkaði og því er ekki um neitt valdaframsal til evrópskra stofnana að ræða. Innleiðingin felur hins vegar í sér herta neytendavernd og aukið eftirlit með virkri samkeppni á markaði. Er það kannski rót andstöðu Framsóknarmanna við málið? Það mætti alla vega ætla það ef tekið er mið af öðrum ályktunum miðstjórnar flokksins um helgina.

Ég spyr því hæstv. ráðherra og formann Framsóknarflokksins: Hvers vegna er Framsóknarmönnum svona í nöp við neytendur? Hvers vegna stillir flokkurinn sér ítrekað upp gegn neytendum, með sérhagsmunum?