149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

mótun flugstefnu.

[14:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vona að forseti virði mér það til vorkunnar þó að ég spyrji hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um málefni sem tengist málefnasviði hans innan ríkisstjórnarinnar. [Hlátur í þingsal.] Mér leikur nokkur hugur á að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig miði mótun flugstefnu fyrir landið.

Við höfum séð þær breytingar eiga sér stað á undanförnum árum að flugið sem atvinnugrein hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í hagkerfi okkar. Það hefur verið gríðarlega mikilvæg forsenda ferðamannastraums til landsins sem hefur auðvitað haft mikil efnahagsleg áhrif, en flugstarfsemi sem slík er um leið orðin verulega veigamikill þáttur í atvinnulífinu og starfsemi sem tengist fluginu með einum eða öðrum hætti.

Þá er heldur ekki gert lítið úr þætti innanlandsflugs í samgöngukerfi okkar innan lands sem er enn gríðarlega mikilvægt gagnvart þeim byggðum sem fjær höfuðborgarsvæðinu eru. Ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur hafið stefnumörkun á þessu sviði, almenna stefnumörkun sem lýtur að uppbyggingu innviða og starfsaðstæðum fyrir greinina. Þar sem við höfum kannski að undanförnu verið með hugann fyrst og fremst við rekstrarafkomu einstakra fyrirtækja og hugsanleg áhrif sem þar gætu komið fram vildi ég beina umræðunni svolítið að hinni almennu stefnumörkun sem ég veit að er komin af stað af hálfu hæstv. ráðherra, en ég vil biðja hann að gera okkur grein fyrir því í stuttu máli.