149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var afskaplega ánægður með þetta andsvar hv. formanns fjárlaganefndar þangað til í lokin að hann skemmdi það aðeins. Við höfum kannski ekki tíma til að ræða það meira í andsvari. Ég ætla að nýta tímann til að bregðast við fyrirspurn hans varðandi samgöngumálin sérstaklega. Ég vil þó fyrst ítreka það að mér finnst nálgun hv. formanns fjárlaganefndar mjög góð og vona að hann fylgi henni eftir með því að vinna vel með okkur þingmönnum, þingmönnum ólíkra flokka, að því að gera á þessu lagfæringar, breytingar og bætur, bæði í fjárlagafrumvaprinu og í þeirri vinnu sem fram undan er hjá nefndinni.

Varðandi samgöngumálin sérstaklega þá er ég algerlega opinn fyrir því að skoða hvaða leiðir eru vænlegastar til að fjármagna uppbyggingu samgöngumannvirkja, draga úr slysum o.s.frv. og gera það eins hratt og kostur er. Það sem ég hef þó alltaf látið fylgja sögunni hvað það varðar og mér finnst vera algjört grundvallaratriði er að það sé ekki hægt að fara út í enn eina nýja gjaldtöku af vegfarendum án þess að aðrar lækkanir komi þá á móti. Við getum ekki fundið stöðugt upp nýja gjaldtöku eins og enn er verið að gera, hækkað þessi gjöld aftur og aftur, nýtt svo ekki fjármagnið nema kannski helminginn í samgöngubætur og ætlað svo finna upp enn ný gjöld. Með öðrum orðum: Það þarf að vera einhver heildarsýn og sú heildarsýn á ekki og þarf ekki að fela í sér aukna heildargjaldtöku af vegfarendum. Það er með öðrum orðum hægt að gera þetta á skynsamlegri hátt án þess að heildargjaldtaka aukist. Ég gleðst bara yfir því ef hv. formaður fjárlaganefndar er til í að velta fyrir sér öllum möguleikum í þeim efnum.