149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem hefur í þrígang farið mjög ítarlega yfir málin. Er það vel. Hv. þingmaður fór yfir málefnasviðin en ræðutíminn styttist alltaf og hv. þingmaður hefði örugglega þegið meiri tíma.

Ég ætla að staldra við samgöngurnar. Það er sannarlega verið að auka útgjöld verulega til samgangna. Það verður að halda því til haga. Það er í fjárhæðum talið átak næstu þrjú árin.

Hv. þingmaður kom inn á umsögn, mjög vandaða að venju, frá Samtökum iðnaðarins sem snýr að samgöngum og uppsafnaðri þörf. Það er auðvitað stórt verkefni fram undan. Þrátt fyrir að við aukum og þenjum út útgjöldin á öllum málefnasviðum og eins mikið og við getum til samgangna er hægt að telja í einhverjum áratugum, miðað við sama hraða, bara vinnu á uppsafnaðri þörf, ég tala nú ekki um nýframkvæmdir og viðhald á þeim framkvæmdum.

Samgöngur snúa auðvitað að flugvöllum og höfnum og þar bíða líka risastór verkefni. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hugmyndir hans og Pírata um að fjármagna það til framtíðar. Það er augljóst að árlegir skattpeningar, þeir sem streyma inn, tekjujöfnunarkerfin, standa ekki undir því ef við ætlum að gera þetta almennilega og vel. Hverjar eru hugmyndir Pírata (Forseti hringir.) og hv. þingmanns um það hvernig við fjármögnum þetta til framtíðar?