149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þrjár mínútur, tökum þrjár spurningar. Til að byrja með kom hv. þingmaður inn á tekjustofnana og hvernig þeir hafa þróast á undanförnum árum frá 2012, sem er mjög áhugavert. Þetta er ábending sem við höfum fengið frá fjármálaráði einmitt um það hvernig þeir eru dálítið fallvaltir í efnahagssveiflum. Ég tek undir það sem hv. þingmaður talar þarna um, það þarf í rauninni að huga að ákveðinni breikkun skattstofnanna.

Þá velti ég fyrir mér hvar eigi að gera það, ég er nefnilega ekki alveg klár á því hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í því eða hv. þingmaður. Á þá að auka tekjur eða skattinnheimtu á hvaða stað? Væntanlega þá í staðinn fyrir að lækka annaðhvort virðisaukaskattinn eða tekjuskatt einstaklinga að sjálfsögðu. En hvar eigum við að breikka? Hvar eru þær stoðir? Í hvaða stoðum sjáum við fram á aukna skattheimtu hins opinbera?

Svo seinni spurningin í fyrri umferð: Hvernig líður hv. þingmanni með það að við fáum ekki sundurliðaðar upplýsingar frá ráðuneytunum vegna fyrirspurna sem koma frá nefndinni um það hvernig útgjaldaaukningin er útskýrð og sundurliðuð? Sú sundurliðun sem við fáum stemmir síðan ekki við útgjaldahækkunina til hvers málaflokks.