149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Það eru einmitt stórar ósvaraðar spurningar eftir fyrir í rauninni okkur öll hvað varðar skattumhverfið.

Þriðja spurningin. Hv. þingmaður talaði um að við höfum aldrei verið eins vel í stakk búin með að taka ákveðna efnahagsdýfu varðandi skuldaniðurgreiðslur o.s.frv. En eins og ég hef komið að hérna í umræðunni þá glímum við núna við, og það var í rauninni umræðuefni síðustu kosninga, stóru skuldirnar okkar sem eru viðhaldsþörfin og innviðauppbyggingin sem hljóðar upp á ansi marga milljarða. Þetta er ekki skuld á þann hátt sem við miðum við í lögum um opinber fjármál, en þetta er skuld engu að síður, það kostar okkur að vera með viðhaldið á svona lágu plani eins og það er og þegar við erum með fjárfestingarnar eins litlar og þær eru. Og hvað ætlum við að gera við þessa skuld ef við förum í efnahagsdýfu?