149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:50]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hafa menn farið misvítt yfir sviðið. Sumir hafa litið vítt á málið og aðrir þrengra. Ég ætla að gera það síðarnefnda, ég ætla ekki að fara mjög mörgum orðum um stóru myndina í þessu fjárlagafrumvarpi. Það hafa aðrir gert, t.d. okkar ágæti áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson. Stóra myndin hvað mig varðar er sú að frá því að sú ríkisstjórn sem sat á sínum tíma og naut míns stuðnings — þar sem Benedikt Jóhannesson var fjármálaráðherra, einn af bestu fjármálaráðherrum Íslandssögunnar, vil ég meina — þar sem lagt var fram fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun, þar sem sagði á sínum tíma að aðhaldið væri síst of mikið, hafa málin ekki batnað hvað það varðar.

Fyrstu þrjú orðin í umsögn Samtaka atvinnulífsins eru: „Skortur á aðhaldi“, meira að segja feitletruð og með bláu til að leggja mikla áherslu á þau orð. Ég held að menn megi taka það til sín.

Ég ætla þó að skauta á smærra svelli. Ég ætla að reyna að vekja athygli á einu máli sem er smátt, a.m.k. í umfangi fjárlagafrumvarpsins og þeirri vigt sem það fær, því máli sem lýtur að börnum með annað móðurmál en íslensku. Hér hafa menn auðvitað rætt um ýmis mál og ýmsa hópa, öryrkja, vegaframkvæmdir o.s.frv. Það eru allt málaflokkar sem varða vissulega marga en þarna er tiltölulega stór hópur, börn með annað móðurmál en íslensku og börn af erlendum uppruna, þetta er hópur sem spannar væntanlega upp undir annan tug þúsunda.

Það er ástæða til að líta aðeins á þær áskoranir sem þessi hópur býr við. Hvar sem litið er, hvort sem litið er til málþroska þegar upp úr leikskóla er komið, árangurs við lestrarskimun í grunnskóla eða brottfalls í framhaldsskóla, virðist sem svo að okkur sem samfélagi hafi ekki tekist nægilega vel að búa til umhverfi sem er nógu nærandi, að þessir einstaklingar geti komið út í lífið, jafn vel nærðir og aðrir einstaklingar á sama aldri. Í þessu fjárlagafrumvarpi er vissulega hægt að finna einhvern snertiflöt við þessi mál en í ljósi þess hvað áskoranir í málaflokknum eru miklar mætti í rauninni verja talsvert meiri tíma í að ræða um þau mál en ýmis önnur sem hér hafa verið rædd heilmikið.

Þar sem þetta er málaflokkur menntamálaráðherra, sem er samflokkskona hv. þm. Willums Þórs, sem er hér í salnum, langar mig að beina til hans nokkrum athugasemdum — fyrst hún er ekki hér sem ég fór heldur ekki fram á þannig að það er eðlilegt — sem mætti hafa í huga þegar hæstv. menntamálaráðherra forgangsraðar innan síns málaflokks.

Á bls. 349 er tæpt á nokkru sem mætti telja að félli undir þetta. Þar er markmið nr. 4, staða barna með annað móðurmál en íslensku, og þar eru tvær aðgerðir, a) unnið eftir þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir 2016–2019 í samstarfi við sveitarfélög; b) kynna og innleiða samræmdan leiðarvísi fyrir móðurmálskennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Framkvæmdaáætlunin er komin eitthvað til ára sinna og þar eru ýmsar athyglisverðar aðgerðir, hvatningarverðlaun, fræðsla, átök og hitt og þetta, en ég held samt, svo ég kjarni eitthvað, að það séu ákveðnir stoðhlutir. Ég ætla að nefna tvo sem vantar áþreifanlega.

Sveitarfélögin, m.a. það sveitarfélag sem ég hef þann heiður að sitja í sveitarstjórn fyrir, sem sagt Reykjavík, hafa gert sitt og reynt sitt til að bregðast einhvern veginn við því að þessi hópur virðist ekki fá nægilega mikla hvatningu og næringu í námi, t.d. að styrkja stoðþjónustu og ráða inn fleira fólk í þá skóla þar sem hlutfall nemenda af erlendum uppruna er hátt. En það eru ákveðnir hlutir sem sveitarfélög geta ekki gert vegna þess að það er einfaldlega ekki á þeirra færi eða þeim er það ekki skylt lögum samkvæmt.

Ég ætla að nefna þessa tvo hluti. Í fyrsta lagi er það í rauninni menntun fólks á háskólastigi, sérfræðimenntun. Í ljósi þess að sá hópur sem um ræðir er, eins og ég segi, upp undir 20.000 nemendur er það áþreifanlegt að ekki er til nein námsleið á Íslandi, t.d. á meistarastigi, þar sem fólk er sérstaklega menntað í því að hjálpa, þ.e. að kenna íslensku sem annað tungumál eða kenna íslensku þeim börnum sem hafa ekki íslensku að móðurmáli. Miðað við stærð hópsins er það skrýtið og það er slæmt að því leyti að jafnvel þó að tiltekin sveitarfélög eða aðrir sem vinna í þessum málum hafi t.d. þann metnað að ráða inn margt fólk til að hjálpa þessum hóp betur eru sérfræðingarnir ekki til staðar. Ef við segjum að nokkur þúsund nemendur þurfi nokkur hundruð kennara er þessi fjöldi engan veginn til þarna úti til að auglýsa eftir, mennta hann og ráða. Þetta er einn hlutur.

Annar hlutur er skortur á námsefni fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Mér finnst slæmt að ekki sé til nægilega gott námsefni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er gott námsefni mikilvægur leiðarvísir fyrir kennara af því að kennarar þeirra barna hafa ekki allir fagþekkingu í því að mennta börn með annað móðurmál en íslensku, en ef kennsluefni er til staðar getur það hjálpað til í öllum skólastofum landsins.

Annað sem skiptir líka máli og mér finnst spurning um ákveðna áferð er að ef meira yrði t.d. gert af því að búa til konkret útprentaðar bækur með kápu, fallegum myndum og öllu myndi kannski hópnum sem þessi kennsla beinist að líða eins og það væri aðeins meira búið að pæla í því að þau séu komin hingað til landsins. Það er svolítið sérstakt að fá allt í einhverjum ljósritum sem kennarar hafa eftir fremsta megni reynt að redda sér til að bregðast við þörfum fólks. Ég held að það færi vel á því að við þessu yrði brugðist.

Námsefnisgerð er á framfæri ríkisins. Ég er ekkert endilega að kalla eftir því að ríkið beiti sér sjálft og persónulega fyrir því að hanna námsefni og prenta út bækur. Ég hef ekkert endilega verið á þeirri skoðun þó að umgjörðin hafi mestmegnis verið þannig, en af því að hér velta menn alltaf milljörðum í allri umræðu, það vantar 2 milljarða, 5 milljarða hingað og þangað, má nefna að sjóðurinn sem sér um að styrkja námsefni sem ekki er gefið út af hinu opinbera, þessu þrengsta opinbera, er þróunarsjóður námsgagna og hann úthlutaði fyrir 52 milljónir á seinasta ári. Þetta voru mestmegnis lítil verkefni, ekki verkefni af þeirri stærðargráðu að gefa út kennslubók.

Þarna held ég að væri ráð að ráðherrann forgangsraðaði betur innan eigin málaflokks, ég er ekki endilega að kalla eftir auknum útgjöldum heldur bara betri forgangsröðun innan málaflokks. Það mætti vera aðhaldskrafa á sum svið og bæta síðan aðeins inn í þennan sjóð, gera hann að samkeppnissjóði, búa til einhvers konar öndvegissjóð þar inni sem gæti styrkt verkefni af stærðargráðunni 10–20 milljónir. Ég held að þetta þurfi ekki gríðarmikla peninga, en það þarf fyrst og fremst athygli stjórnvalda og þá athygli tel ég hafa skort.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lengja umræðuna miklu meira af því að ég held að þetta sé í rauninni það tvennt sem skiptir mestu máli og það tvennt sem ég ætla að skilja eftir á Alþingi og hjá hæstv. ríkisstjórn ef hún er að horfa á mig í tölvunni einhvers staðar. Það má nefna að um þessi atriði sameinaðist öll borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkrum vikum þegar sammælst var um tillögu um aðgerðir til að bæta árangur barna af erlendum uppruna. Borgarstjórn Reykjavíkur fór strax í aðgerðir sem snúa að þeim þætti sem Reykjavíkurborg getur framkvæmt sjálf, þ.e. að auka við stuðning inni í skólastofum og skoða aðeins betur ástæður þess t.d. að börn með annað mál en íslensku haldist verr í félags-, æskulýðs- og íþróttastarfi. Það er þessi hlutur sem kemur að ríkinu, stoðþjónustu þess, og þá nefni ég fyrst og fremst þetta tvennt, að háskólakerfið mennti kennara sem eru sérhæfðir í því að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku og að útbúið verði almennilegt námsefni fyrir þennan hóp.