149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta samtal. Ég skildi ekki eftir neina spurningu, enda var ég fyrst og fremst að gefa hv. þingmanni tækifæri á að koma hingað aftur, ræða málið frekar og miðla af reynslu sinni og þekkingu í þessu.

Ég hef jafnframt aðeins kynnst þessu í gegnum framhaldsskólana. Mér finnst athyglisverður punktur hv. þingmanns um það tímaskeið þegar börn og unglingar taka þátt í ýmiss konar tómstundastarfi, íþróttum eða tónlist eða hverju sem er. Ég held að á einhverju tímabili komi hjá öllum börnum eitthvað annað, þau verða leið, hvatningin fer einhvern veginn og þá er ofsalega mikilvægt hjá öllum sem að því koma og ekkert síður foreldrum og þeim sem eru að kenna börnunum að hjálpa þeim að glæða áhugann og halda út. Það er mín reynsla í þessu efni.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki algerlega óháð þjóðerni. Auðvitað getur tungumálið verið til trafala og truflað eitthvað. Ég get eiginlega ekki fullyrt um það en það er í raun og veru ekki mín reynsla. Ég ítreka bara þakkir fyrir ábendingar um þennan þátt.