149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, öll viljum við stuðla að jafnrétti. En við eigum ekki heldur að gefa sjálfum okkur afslátt af skýrri framsetningu og rökhugsun þótt við séum með góðan málstað. Það sem fer í taugarnar á mér í þessu máli er að hér er verið að grauta saman ansi mörgum mismunandi þáttum.

Ég nefndi í andsvörum áðan að mér fyndist að það þyrfti að gera skýran greinarmun annars vegar á stöðu kjörinna þingmanna, kjörinna stjórnmálamanna sem hér hafa réttindi og skyldur á þeim forsendum, í umboði kjósenda sinna, og svo hins vegar þeirra starfsmanna sem lúta þeim lögum og reglum sem gilda um stöðu opinberra starfsmanna. Ef það á að nálgast mál af þessu tagi þarf að hugsa þetta út frá því.

Það þarf líka að velta því fyrir sér hvert eigi að vera hlutverk Alþingis í þessu efni og hvert hlutverk annarra stjórnvalda. Nú höfum við ráðherra sem hefur stjórnskipulegar skyldur hvað varðar jafnréttismál og eftirfylgni áætlana á sviði jafnréttismála. Það er að jafnaði ekki hlutverk forseta Alþingis að hafa eftirlit með því hvernig gengur að hrinda í framkvæmd ályktunum um þetta málefnasvið frekar en önnur. Þar að auki höfum við sérstök stjórnvöld, Jafnréttisstofu, kærunefnd jafnréttismála og fleiri aðila, sem hafa einmitt það hlutverk að hafa almennt eftirlit með stöðu mála af þessu tagi. Þegar við nálgumst þetta mál þá þurfum við líka að hugsa: Hvað erum við að horfa á í þessu sambandi sem snýr að Alþingi sem slíku, sem stofnun eða sem vinnustað, ef við viljum orða það svo, og hvað snýr að aðilum annars staðar í þjóðfélaginu?

Þá hlýtur, og hv. fyrsti flutningsmaður leiðréttir mig ef ég er að misskilja, að koma til skoðunar, sérstaklega þegar við horfum á síðari hluta þeirrar upptalningar sem hér er að finna í tillögutextanum, hvort við séum að horfa á þessi atriði, þetta mat á stefnum og áætlunum og lagasetningu og öðru sem snýr að jafnréttismálum, inn á við eða út frá Alþingi sem vinnustað eða stofnun eða hvort við séum að hugsa um samfélagið í heild. Þegar við segjum að það sé hlutverk jafnréttisvaktarinnar að skoða hverja þá stefnu Alþingis sem hefur áhrif á kynjajafnrétti, er það bara kynjajafnrétti innan þingsins eða kynjajafnrétti í samfélaginu? Aðgerðaáætlanir — eru það aðgerðaáætlanir sem varða bara þingið eða þjóðfélagið í heild? Þetta á enn þá frekar við þegar kemur að síðasta liðnum þar sem vísað er til skýrslugerðar Alþingis og þátttöku í umfjöllun á alþjóðavettvangi og allar skýrslur sem Ísland hefur gefið Sameinuðu þjóðunum og snerta stöðu kynjanna.

Það sem ég er að hugsa er að til þess að ná þeim göfugu markmiðum sem tillöguflytjendur án efa stefna að, þarf kannski að móta þetta, skýra og skerpa þannig að viðfangsefnið sé með einhverjum hætti áþreifanlegt og viðráðanlegt. Ég sakna þess svolítið að ekki sé í tillögunni greint frá því hvernig þjóðþing annars staðar nálgast þetta viðfangsefni og hvernig þau forma það. Annars er hætta á því, svo ég tali frá innstu hjartans rótum, að málið fari einhvern veginn bara út og suður af því að það er verið að reyna að ná yfir svo margt með ómarkvissum hætti. Gagnrýni mín á málið lýtur m.a. að því.

Ef ég á að bregðast við þessu myndi ég segja að áður en farið er lengra með þetta mál, hvort sem það er gert á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða annars staðar, þyrfti að hugsa það dálítið skipulega hvert viðfangsefnið eigi að vera. Á það bara að snúa þinginu? Þarna er vísað til stjórnmálaflokka almennt. Á þingið að hafa eftirlit með starfsemi stjórnmálaflokka? Reyna að greina hvort það eru karlar eða konur í áhrifastöðum í stjórnmálaflokkunum? Það hlýtur að lúta að einhverju sem er utan þingsins, ef hægt er að lesa þetta í einhverju samhengi. Er það það sem við viljum? Erum við að hugsa um að þessi vakt eigi að hafa eftirlit með því að aðgerðaáætlun sem þingið samþykki sé hrint í framkvæmd? Er það hlutverk einhverrar vaktar á vegum forseta þingsins? Það eru svona spurningar sem við þurfum að reyna að átta okkur á áður en við förum lengra með þetta.

Síðan getum við sagt að sjálfsagt sé og eðlilegt og þarft að haldin sé tölfræði, og þess vegna birt með sama hætti og ég hygg að hafi nú verið gert á á heimasíðu þingsins, yfir hlutfall kynja og annað þess háttar, þ.e. hversu margar konur sitja á þingi, hversu margar konur eru í nefndum og annað þess háttar. Það þarf kannski ekki annað en ábendingu til þeirra sem halda utan um vefsíðu þingsins til að hægt sé að koma þeirri tölfræði á framfæri. En það getur hins vegar verið meira mat og krefst einhvers mats þegar farið er að reyna að greina hverjir eru í áhrifastöðum og hverjir ekki. Ef það á að meta hver formleg aðkoma er að áhrifastöðum og hver raunveruleg áhrif eru erum við farin að tala um einhverja félagsfræðilega rannsókn sem ég er ekki viss um að sé á verksviði forseta Alþingis.

Ég myndi nú segja að ég leggst gegn því að þetta mál verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Ég leggst ekki gegn því að það gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fái þá umfjöllun sem það þarf. En mér finnst hins vegar nauðsynlegt að hér við fyrri umr. komi fram þessi sjónarmið þannig að í framhaldi málsins geti menn áttað sig á því — eða reynt alla vega að ná einhverri samstöðu um það — hvaða vinnu þarf raunverulega að vinna til þess að þetta verði að einhverju gagni en ekki bara enn ein ályktunin um góð markmið.