149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[13:53]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er mjög góður punktur og ég þakka fyrir þessa ábendingu.

Ég vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd gefi mér líka vit í þessu og bæti úr textanum eins og þarf. Ég tek algjörlega undir það, þetta er bara hárrétt hjá þér. Mér finnst líka mikilvægt að hér komi fram að auðvitað er umgengni í landinu okkar orðin allt önnur og betri en hún var. Ég fór t.d. í Landmannaafrétt í haust og tók eftir því að ekki nokkur maður keyrði á bílum út fyrir vegi, enginn henti út rusli.

Þegar ég byrjaði á sjó 1972, 16 ára gamall sem kokkur, þá var öllu hent í sjóinn. Það var bara fata í lúkarnum og öllu hent í sjóinn. Ég er búinn að fara oft á sjó síðan og fór síðasta sumar. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að það fari eitthvað í sjóinn. Það er mikil vitundarvakning hjá okkur og umhverfið allt saman er orðið hreinna. Þess vegna er miklu meira áberandi þegar einn og einn sóði gengur svona um.

Það er algjörlega hárrétt hjá fyrirspyrjanda að beina því inn í starf nefndarinnar að víkka þetta út og hafa orðalagið almennara og leita leiða til þess að við þurfum ekki beita sektum. Það á að vera eðlilegt að ganga þannig um samfélagið og náttúru landsins og okkar nánasta umhverfi að það sé hreint og fallegt í kringum okkur eins og við viljum hafa það og við göngum um hjá nágrannanum eins og við viljum að hann umgangist heimili okkar, lóðir og lendur.