149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skal lofa þingheimi því að það er engin hætta á öðru en að ég komi aftur í ræðu og þá treysti ég því að allir sem vilja við mig tala komi í andsvör og ég skal bara halda jafn margar ræður og þarf til að mæta því að hv. þingmenn geti spurt mig spjörunum úr. Það er meira en velkomið. Ég hræðist það ekki, enda hef ég svo góða samvisku yfir þessu máli. Ég veit að þeir hv. þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd vita vel að það er búið að vinna mjög vel að þessu máli í tvo mánuði í nefndinni með ellefu fundum með 25 aðilum og fjöldi manns kom frá sumum aðilum. Það hafa komið meira en 100 gestir. Það var látið vita af því með viku fyrirvara hvenær stæði til að taka málið út. Það voru engar óskir þá um viðbótargesti, búið að uppfylla allan gestalistann og fara yfir allar umsagnir (Forseti hringir.) og það var orðið við því að fá aftur gesti eins og SFS og LS á fimmtudaginn, (Forseti hringir.) í gær. Svo að ég er með góða samvisku og mér finnst leitt hve stjórnarandstaðan er fúl svona í morgunsárið.