149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er breyskari en margur. Það er gott að fá á hreint að hv. þingmaður er hlynntur afkomutengingu veiðigjalda. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því ég veit að hún er sanngjörn manneskja og hef mikið álit á hv. þingmanni: Finnst henni sanngjarnt að vera alltaf að tala um að í frumvarpi meiri hluta og frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra sé verið að minnka tekjur af því að hún er alltaf að horfa á næsta ár? Hér erum við að setja á kerfi sem á að virka til framtíðar. Það hefur komið fram á fundum nefndarinnar að ef þetta kerfi væri við lýði árið 2020 væru veiðigjöld 2,5 milljarðar. Á sama hátt gæti ég sagt: Við erum að stórauka veiðigjald og mínusa það, en ég er ekki ósanngjarn maður. Þess vegna horfi ég á að hér erum við með afkomutengingu. Þess vegna sveiflast veiðigjaldið í takt við afkomu útgerðarinnar. Þess vegna er býsna ósvífið að vera alltaf að tala um að það sé verið að lækka veiðigjöld.

Ég minni hv. þingmann á að ef sú aðferð sem hér er lögð til hefði verið notuð síðustu tíu ár hefðu komið í ríkissjóð 500 milljörðum kr. meiri veiðigjöld en gerðu. Þetta hefði (Forseti hringir.)sem sagt hækkað veiðigjöldin síðasta áratuginn um hálfan milljarð króna og munar nú um minna.