149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

eineltismál.

[15:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að lesa upp úr samningi um réttindi barnsins sem festur hefur verið í gildi á Íslandi. Þar segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.”

Mig langar að benda börnum þessa lands á að þið eigið rétt á því að fullorðna fólkið verji ykkur, að fullorðna fólkið hugsi um réttindi ykkar.

Ég ætla að lesa þessa grein aftur og beina henni til skólayfirvalda í þessu landi, til þessarar löggjafarsamkundu, til ráðherranna og annarra sem annast framkvæmd á lögum sem við höfum samþykkt, m.a. þessum samningi. Textinn er svona, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.”

Í 2. mgr. 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“

Við fullorðna fólkið sem höfum tekið að okkur að vera í þessari stöðu, sama hvort það er löggjafi, ráðherra, skólastjóri, yfirstjórnandi eða lögráðamaður — foreldrar sem lögráðamenn stíga mikið fram en við hin sem höfum þessum skyldum að gegna samkvæmt lögum eigum að vernda börn.

Við vitum svo mikið um eineltismál í skólum landsins. Það er fyrst skólastjórnendanna að stíga inn og vernda barnið.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um er: Hvað er á dagskrá ráðuneytis hennar, menntamálaráðuneytisins, hvað það varðar að vernda börn gegn einelti?