149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist að sú hugmynd eða hugsun komi upp í kollinn á manni, þegar maður horfir á málflutning ríkisstjórnarinnar og meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu máli, að hér sé verið að setja á svið leikrit. Þetta er mikið verk sem sett hefur verið upp þar sem sunginn er mikill grátkór um afar slæma stöðu sjávarútvegs um þessar mundir sem krefji ríkisstjórn um skjótar aðgerðir til að bjarga greininni. Ekki verður annað lesið úr þessum harmkvælum en að greinin sé nánast að þrotum komin. Og hvað er það sem horft er í? Jú, að EBITDA-framlegð greinarinnar á síðasta ári, á árinu 2017, hafi dottið niður í 15–17%, sem þætti frábær afkoma í öllum öðrum atvinnugreinum, svo að því sé skýrt til haga haldið. Jafnvel í fjárfestingafrekri atvinnugrein eins og sjávarútvegi þætti þetta með eindæmum góð afkoma. En hvaða fréttir höfum við síðan á þessu ári af afkomu greinarinnar? Tekjur sjávarútvegsfyrirtækja eru að aukast um 10–15% á milli ára. Gengið er að veikjast, olíuverð heldur að skána, ágætishorfur að flestu leyti í greininni, ekkert sem bendir til þess að greinin eigi neitt sérstaklega við rekstrarvanda að stríða, enda hafa hér verið viðskipti með fyrirtæki og aflaheimildir sem aldrei fyrr. Við höfum tugmilljarðaviðskipti á þessu ári með aflaheimildir. Þetta endurspeglar ekki atvinnugrein sem er í kreppu. Þetta endurspeglar ekki atvinnugrein sem óttast um horfur sínar.

Afkoma sjávarútvegs á síðasta ári var slök út af nokkurra vikna sjómannaverkfalli og það er meginskýringin á lélegri afkomu greinarinnar á síðasta ári en það á að nota núna sem afsökun til að lækka veiðigjöld. Við skulum hafa það á hreinu. Það er leikritið sem hér er boðið upp á. Það er enginn undirliggjandi rekstrarvandi í greininni, það verður hvergi á hann bent með neinum raunhæfum gögnum, hvað þá þegar horft er til þessarar einföldu staðreyndar. Greinin hefur fulla trú á eigin afkomu og sú trú endurspeglast í mikilli fjárfestingu og háu fjárfestingarstigi í greininni, bæði í veiðiheimildum en ekki síður í framleiðslutækjum, bæði vinnslu og veiðum.

Það verður eiginlega ekki orðað öðruvísi en að hér sé vísvitandi verið að reyna að blekkja þingið. Ég sé ekki hvernig nálgast á þessa umræðu öðruvísi. Það er verið að grípa tækifæri vegna afkomuhalla sjávarútvegs á síðasta ári, sem fyrst og fremst verður rakið til sjómannaverkfallsins til að lækka veiðigjöldin. Það var stefna þessara stjórnarflokka líka í vor þegar þau voru stöðvuð með svipaðar hugmyndir og aftur er vaðið af stað með nánast óbreytt fyrirkomulag hér að hausti þar sem búið var að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram. Það var búið að finna hina réttu tölu, u.þ.b. 7 milljarða, og svo var fundin hentug leið til að reikna þá stærð út frá afkomu greinarinnar á viðmiðunarári. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Síðan fáum við að heyra aðra sögu hér ítrekað, að gæta verði að stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í greininni. Samt höfum við ítrekað fengið að heyra í þessum sal og víðar að engin talnagögn skýri einhvers konar afkomumun eftir stærð. Við erum með ákaflega vel rekin lítil og meðalstór fyrirtæki líkt og við erum með ákaflega vel rekin stór sjávarútvegsfyrirtæki og auðvitað erum við líka með verr rekin útvegsfyrirtæki af hvaða stærð sem er, lítil, meðalstór eða stór. Afkoman ræðst ekki af stærðinni. Það höfum við ítrekað fengið að heyra og ég hef ekki séð nein gögn frá atvinnuveganefnd um að afkoman sé stærðartengd, líkt og hér er ítrekað haldið fram og sögð ein meginástæðan fyrir því að svo mikið liggi á í þessum málum.

Það læðist að manni sú hugsun að kannski telji stjórnin að henni endist bara ekki aldur til að eyða meiri tíma í þetta, að eyða tíma sem þurfi í þverpólitískt samráð í málinu, og þess vegna þurfi að ráðast í það með þeim æðibunugangi sem hér er. Þessi vinnubrögð eru alla vega ekki í neinum takti við eigin yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar um bætt vinnubrögð, um aukið traust og aukna virðingu fyrir Alþingi. Málið kom ekki fyrir samráðsgáttina. Ekki var gerð minnsta tilraun til að hafa samráð við minni hluta á þingi við undirbúning þessa máls og það er keyrt í gegnum atvinnuveganefnd í fullkominni andstöðu og með ofbeldi.

Og þó að nokkrum sinnum hafi verið lesið upp úr ágætum stjórnarsáttmála ætla ég að gera það einu sinni enn því að það er alveg ljóst að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa ekki tileinkað sér þessi vinnubrögð. En þar segir, með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Það er leitun að þessum vinnubrögðum í því máli sem við erum að tala um hér, það er nokkuð ljóst. Á endanum snýst þetta mál auðvitað um stöðugleika fyrir atvinnugreinina sjálfa og pólitík, þar sem rifist er um það árum og áratugum saman hvernig veiðigjaldafyrirkomulagið eiga að vera, (Gripið fram í.) skapar ekki þann stöðugleika, ekki þegar sífellt er þverskallast við að reyna að ná fram þverpólitískri niðurstöðu í málunum.

Það er reyndar aðdáunarvert að Vinstri græn fóru fram með miklum látum á árunum 2009–2013 í þessu sama máli en hafa nú algjörlega snúist við, enda er alveg stórkostlegt að lesa ræður þeirra frá árinu 2013 þegar ríkisstjórnarmeirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fór að vinda ofan af þeirri vinnu sem á undan hafði gengið. Það er svo sem ekkert að furða þótt hv. þingmenn Vinstri grænna ruglist gjarnan í þessari umræðu og ætla okkur ýmislegt sem ekki er ásetningur okkar eða felst í okkar tillögum, enda hafa þau farið þó nokkuð marga hringi í rökstuðningi sínum í þessu máli. Margar ræður þeirra á árinu 2013 væru ágætlega fluttar af stjórnarandstöðu nú sem endurspeglar auðvitað það sem undir liggur. Um þetta mál, veiðigjöld, framtíðarfyrirkomulag auðlindagjaldtöku í sjávarútvegi og raunar öðrum atvinnugreinum, næst engin niðurstaða sem lifir öðruvísi en að við freistum þess í þessum sal að ná þverpólitískri samstöðu um það. Það virðist því miður vera í þessu máli að hér ræður Sjálfstæðisflokkurinn för og Vinstri græn hafa gerst bara taglhnýtingar Sjálfstæðisflokksins, vinna það bara eftir boðum og bönnum Sjálfstæðisflokksins um það hvaða aðferðafræði megi nota og hvaða aðferðafræði megi ekki nota. (Gripið fram í.)

Það leiðir auðvitað hugann að því að hér hefur ítrekað í nærri 20 ár verið talað um mikilvægi þess að við innleiðum tímabundnar veiðiheimildir. Slíkar hugleiðingar var að finna í skýrslu auðlindanefndarinnar á sínum tíma. Slíkar hugleiðingar hefur verið að finna í flestum þeim samráðsnefndum sem settar hafa verið á fót um fyrirkomulag veiðigjalda á undanförnum árum og slíkar hugleiðingar var að finna í tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem settar voru fram á árunum 2011 og 2012, ef ég man rétt.

Það er í raun bara einn flokkur, eins og ítrekað hefur komið fram í þessari umræðu, sem neitar að viðurkenna mikilvægi þessa, mikilvægi tímabundinna veiðiheimilda, og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Með því er auðvitað verið að festa í sessi eignarhald útgerðarinnar, ekki bara á veiðiheimildinni heldur á auðlindinni sjálfri, með því að þverskallast við árum og áratugum saman að festa í sessi að um sé að ræða tímabundnar veiðiheimildir en ekki varanlegar. Það er allt og sumt sem minni hlutinn í þessu máli er að reyna að leiða fram af auðmýkt án þess að tala með nokkrum hætti um uppboðsfyrirkomulag af neinu tagi heldur að slíkt tímabundið veiðigjaldafyrirkomulag byggi á þeirri gjaldtöku sem hér er verið að leggja upp með þó að við teljum hana meingallaða að mörgu leyti.

En, nei, þetta má ekki ræða. Það er ansi sérstakt að horfa til þess að okkur sem þjóð, þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað á undanförnum 15–20 árum, um auðlindanýtingu okkar og gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum, hvort sem er sjávarauðlindum, orkuauðlindum, olíuauðlindum eða ferðaþjónustunni nú í síðustu tíð, hefur enn ekki auðnast að finna eitthvert framtíðarfyrirkomulag sem gengur yfir allar þessar atvinnugreinar. Það er auðvitað mjög óeðlilegt að við séum að byggja upp rekstrarumhverfi í atvinnulífi sem krefst í raun og veru engrar samræmdrar gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda. Við skulum bara taka sjávarútveginn sem dæmi um þetta. Hver er í raun og veru aðgangurinn að auðlindinni? Það er að sækja ókeypis hráefni í sjó. Það er það sem umræðan á að snúast um. Það er verið að biðja um eðlilegt gjald fyrir hráefnið. Það eru engar framleiðslugreinar sem búa að því að geta sótt sér ókeypis hráefni. Það sem í þessu felst, þegar við tölum um þjóðareign auðlindarinnar — þjóðin á þetta hráefni í sjó — er að hún fái eitthvert afgjald fyrir.

Ótti flokka eins og Sjálfstæðisflokksins við að í slíkri gjaldtöku sé stuðst við markaðskerfi er dálítið kómískur. Þessi flokkur sem telur sig markaðshyggjuflokk á svo marga vegu hefur enga trú á markaðnum þegar kemur að því að verðleggja aðgengi að auðlindinni, einmitt sá staður sem maður hefði haldið að það væri svo borðleggjandi af því að þessi sama atvinnugrein er að verðleggja veiðiheimildir daginn út og daginn inn án nokkurra vandkvæða. Það þarf ekkert flókið lagaverk frá Alþingi til að höndla það. Greinin gerir þetta bara alveg ágætlega sjálf.

Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að tala fyrir í Viðreisn, að hún fái bara að gera það líka þegar kemur að veiðigjöldum. En það þykir hægri flokknum, Sjálfstæðisflokknum, algjörlega óhugsandi aðferðafræði, ótæk með öllu. En við verðum auðvitað að ná einhverri niðurstöðu í auðlindagjaldtöku, ekki bara í sjávarútvegi. Auðvitað þurfum við líka að gera þetta í orkugeiranum. Við þurfum líka að ná utan um þetta þegar kemur að hagnýtingu náttúrunnar í ferðaþjónustu. Við getum ekki þverskallast lengur í þessu máli og það er löngu tímabært að menn setjist niður í þessum sal í það þverpólitíska samráð og samstarf sem verður að eiga sér stað ef við eigum að ná einhverri lausn um þetta sem muni halda til lengri tíma.

Ég hef ekki tölu á því í hvaða skipti það er sem þingið er að fikta í þessari gjaldtöku núna frá árinu 2010. Þetta er enginn stöðugleiki fyrir atvinnugreinina. Það er í raun verið að fikta í þessu á hverju einasta ári og á hverju einasta ári setjast stjórnmálamenn í þessum sal niður og segja: Ja, nú erum við búin að finna einu réttu leiðina til að verðleggja auðlindagjaldtöku fyrir greinina, aðeins til að setjast svo aftur niður að þessu sama vandamáli ári síðar eða þegar nýr meiri hluti hefur verið myndaður í þinginu.

Ég held að það sé löngu tímabært að við öxlum þá ábyrgð sem við eigum að axla hér til að vinna þetta með aðeins meiri skynsemi að leiðarljósi og þverpólitískari hætti en verið hefur.

Aðeins að þeirri aðferðafræði sem hér er stuðst við um verðlagningu veiðigjaldsins sjálfs. Þetta er mjög flókið kerfi og það eru ýmsir ágallar á því sem bent hefur verið á í umsögnum án þess að séð verði að nokkuð sé gert með það. Hér er verið að handsmíða einhvers konar uppgjörsaðferð sem hvergi er stuðst við eða unnið með á neinum öðrum stað í uppgjöri greinarinnar. Við höfum fundið einhverja glænýja uppgjörsaðferð fyrir atvinnugreinina sjálfa og það er bent á ýmsa ágalla. Hinir augljósu eru náttúrlega hættan á ýmiss konar bókhaldsbrellum, að verið sé að færa kostnað á milli rekstrareininga eða reyna að belgja kostnað upp með einhverjum hætti. Þetta eru ekki kjarnorkuvísindi. Það er augljóst að þegar greinin er með aðkomu sinni að verðleggja afgjald sitt fyrir auðlindina sjálf þá bjóðum við þessari hættu heim. Á þetta hefur ítrekað verið bent en ekki hlustað. Það er ekki stuðst við þá einföldu uppgjörsaðferð sem Hagstofan sjálf birtir. Þó að við eigum um ófáar atvinnugreinar jafn ítarlegt og greinargott uppgjör og einmitt um sjávarútveg í afkomugreiningu Hagstofunnar taldist það ekki tækt hér.

Við slumpum á fjármagnskostnað fyrirtækja með því að ætla að hann sé hinn sami og afskriftir. Ég hef bara aldrei heyrt því fleygt fram í neinni atvinnugrein að þarna sé nauðsynlega samhengi á milli, ekki nokkurt, og ég skil ekki af hverju í ósköpunum ekki er hægt að finna einhverja meiri raunaðferðafræði. Ég held að það sé bara ágætt að benda á það t.d. að við erum með uppgjörsaðferðir þegar við reiknum fyrir reglað fyrirtæki eins og Landsnet hvernig reikna beri afkomu þess, uppgjör og verðlagningu. Það ætti ekki að vera nokkur vandi að eiga við það með svipuðum hætti fyrir sjávarútveginn. Það sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli er verðlagning á aflanum sjálfum sem sjómenn hafa árum og áratugum tugum saman gagnrýnt útgerðina fyrir að vanmeta að þeirra mati. Hér er kominn nýr hvati í slíku uppgjöri til að lækka virði afla, bæði þá á kostnað skattgreiðenda þessa lands eða ríkissjóðs og auðvitað sjómanna sjálfra.

Maður horfir á leikritið sem er hér á ferðinni og þriðju rökin, fyrir utan þessa hræðilegu afkomu sem verður ekki séð að sé þá raunin lengur, eru þá sjóðstreymisvandinn sem því fylgir að vera að greiða hér tveimur árum á eftir. Ég held að flest fyrirtæki sem njóta góðrar afkomu, þó að það líði nokkur tími þangað til þeim beri að greiða skatt af því, eigi alveg fyllilega að vera fær um að leggja til hliðar fyrir þeim útgjöldum. Það deilir enginn um það. Talað er um að það sé svo skelfilegt að í heldur þyngra árferði sé útgerðin að greiða af mjög góðu ári, 2016. Útgerðin naut þessa góða árs. Hún hlaut að geta lagt til hliðar fyrir því og nota bene nýtur batnandi árferðis núna þegar kemur að gjalddaga á þeim reikningi. Það er ekki sú mikla vá fyrir dyrum sem hér er reynt að teikna upp sí og æ.

Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja þegar maður horfir á málið frá þessum bæjardyrum. Ekki er minnsta tilraun gerð til þverpólitísks samstarfs. Hér er settur á svið einhver sá stórkostlegast farsi sem ég hef séð. Ég ætla bara að segja: Það er verið að blekkja þingið með þeim málflutningi sem hér hefur verið viðhafður af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluta atvinnuveganefndar því að þeim staðhæfingum sem settar eru fram, um grafalvarlega stöðu greinarinnar, finn ég hvergi stað í tölum þegar maður leggst yfir þær og horfir á útflutningstekjur greinarinnar eins og þær hafa verið að þróast á undanförnum mánuðum og misserum. Þegar við horfum á virðisaukaskýrslur fyrir sjávarútveg á milli ára, þegar við horfum á gengið, þegar við horfum á lækkandi olíuverð, er alveg augljóst að þetta er ekki grein í krísu. Það er enn skýrara þegar við horfum á eigið mat greinarinnar þegar kemur að fjárfestingum hennar í greininni sjálfri. Það sem eftir stendur er auðvitað þetta: Sjávarútvegur hefur á undanförnum 15–20 árum hið minnsta verið alveg stórkostlega arðbær atvinnugrein hér á landi — sem er vel. Kvótakerfið, sem hér var sett á legg fyrir nokkrum áratugum, hefur virkað og skilað nákvæmlega því markmiði sem var megintilgangur þeirra breytinga, að skila hagræðingu í greininni, að hér yrði sjálfbær, öflug, arðbær atvinnugrein í sjávarútvegi. Þetta sjáum við í öllum rekstrartölum greinarinnar að skilaði sér. Þó að auðvitað fylgi því samþjöppun í greininni fylgdi því líka stórkostlegt hagræði og stórbætt afkoma.

Við sjáum að verðmæti veiðiheimilda hefur fyrir vikið hækkað verulega og skýrustu dæmin nú eru tugmilljarðaviðskipti í kringum kaupin á HB Granda og sölu á fyrirtækjum í tengslum við þau kaup, m.a. á Ögurvík og stórum hluta í Vinnslustöðinni. Allt undirstrikar þetta gríðarlegt verðmæti veiðiheimilda á Íslandsmiðum. Það er löngu tímabært að þjóðin hafi einhverja eðlilega hlutdeild í þeim verðmætum. Það er alveg greinilegt, þegar horft er á það hvernig greinin sjálf, atvinnugreinin sjávarútvegur, verðleggur veiðiheimildir sínar, að hún telur mjög mikil verðmæti felast í þessu.

Því var fleygt hér — vafalítið eru það ónákvæmar tölur en það er ekki mjög auðvelt að finna nákvæmar tölur um viðskipti með veiðiheimildir eða ætlað markaðsvirði veiðiheimilda á hverjum tíma — að markaðsvirði veiðiheimilda miðað við viðskiptin í kringum HB Granda væru 800–1.000 milljarðar. Auðvitað er það jaðarverðlagning á veiðiheimildum en í þeirri aðferðafræði sem minni hlutinn leggur hér upp með, varðandi framtíðarverðlagningu á veiðigjöldunum sjálfum, mætti alveg búast við því að slíkt verðmæti yrði lagt til grundvallar. Það er virði þessara viðbótarveiðiheimilda fyrir greinina sjálfa hverju sinni. Þannig hefur hún verið að verðleggja þessar veiðiheimildir árum og áratugum saman þannig að ég skil ekki hvað það er sem markaðshyggjuflokkar óttast svo mjög við þá aðferðafræði sem hér er lagt upp með og ég skil ekki á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessu máli.