149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það frumvarp sem hefur verið hér til umfjöllunar, um álagningu veiðigjalda, endurspeglar það sem ég tel að mikil samstaða hafi verið um í þinginu, þ.e. að færa álagningu veiðigjalda nær í tíma og að hún miðist við afkomu. Það er í raun sú hugmyndafræði sem hefur verið við lýði í umræðunni allt frá því að sérstaka veiðigjaldinu var komið á við miklar deilur árið 2012.

Hér hefur hins vegar ýmsu verið haldið fram í umræðunni og ekki öllu sem ég tel að eigi við rök að styðjast. Ég hlýt að rifja það upp að værum við til að mynda enn með það fyrirkomulag sem samþykkt var árið 2012 væri upphæð veiðigjalda 4,5 milljarðar því að sérstaka veiðigjaldið, sem þá var komið á, í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar, var mjög næmt fyrir breytingum á afkomu. Það sýnir svart á hvítu að veiðigjöldin endurspegla afkomu hvers tíma.

Það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til, í því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram, sýnir hins vegar að búið er að leggja verulega vinnu í að finna sanngjarna aðferð til að tryggja að þjóðin fái eðlilegan og sanngjarnan hlut af sinni auðlind, 33% (Forseti hringir.) gjaldhlutfall. Ég vona að þetta verði skref fram á við í þessum málum sem hafa verið svo umdeild hér á þingi.