149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst rétt að taka það fram hér að í lögum um stjórn fiskveiða er það algerlega skýrt að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Í þeim lögum kemur líka algjörlega skýrt fram að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Hér erum við hins vegar um að ræða frumvarp um hvernig við leggjum gjöld á þessar veiðiheimildir. Þeim sjónarmiðum sem hv. þingmenn lýsa hér eru gerð fullkomin skil í lögum um stjórn fiskveiða þar sem þau eiga heima.

Þess vegna segi ég nei við þessari tillögu.