149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er í raun og veru verið að fjalla um lög um stjórn fiskveiða en við erum að fjalla um veiðigjöld. Í þeirri umfjöllun er breytingartillaga sem mér finnst varla vera þingtæk. Verið er að tala um að veiðigjaldið standi undir kostnaði við stjórn og eftirlit með fiskveiðum og jafni stöðu byggða vegna breytinga á atvinnuháttum. Ég tek undir með kollega mínum, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, um að það hefur ekkert verið rætt á Alþingi.

Eiga veiðigjöldin eingöngu að standa undir rannsóknum og aðrar tekjur af veiðigjöldum ekki renna í ríkissjóð? Hvar hefur sú umræða farið fram? Hún fór ekki fram á þeim 11 fundum í atvinnuveganefnd sem þeir sem standa að þessari tillögu sátu og ræddu málin. Það kom aldrei fram hjá þeim sem standa að þessu máli, það var ekki rætt innan atvinnuveganefndar.

Hér er kallað eftir samráði um þetta stóra mál og mér finnst það mikið ábyrgðarleysi að koma með svona tillögu órædda án samráðs. Ég nei.