149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er tillaga frá minni hluta þingmanna um að veiðigjaldið renni í ríkissjóð og standi eingöngu undir stjórn og eftirliti með fiskveiðum samkvæmt heimild í fjárlögum hvers árs, en það fé sem umfram er skuli renna í uppbyggingarsjóð landshlutanna.

Ég spyr enn og aftur: Eigum við hér í lítilli breytingartillögu um veiðigjald að fara að afsala ríkissjóði tekjum af veiðigjaldi sisvona? Það er með ólíkindum að láta sér detta það í hug. Kannski vita menn að það verður aldrei samþykkt en það er bara svo óábyrgt að vinna þetta svona.

Ég styð heils hugar að tekjur renni úr ríkissjóði til uppbyggingarsjóðs landshlutanna, en ef menn ætla að fara að láta veiðigjöldin sem slík ekki renna í ríkissjóð heldur til landshlutanna er ég hrædd um að við þurfum að halda nokkrar ráðstefnur um það og nokkra fundi í sáttanefnd.